Meyfæðingin

kariogbarnÞað er nú ekki á hverjum degi sem fjölgun verður í minni fjölskyldu en nú bar svo við aðfaranótt föstudags síðastliðins að Kári bróðir gat af sér meybarn eitt allfagurt er vigtaðist þegar 12,5 merkur. Þar með hef ég eignast náfrænku, Kári er orðinn pabbi og pabbi afi. Fólk í minni fjölskyldu (og ætt) er með því rólegra til barneigna enda er þetta fyrsti náni ættinginn sem ég eignast síðan hinn nýbakaði faðir barst í þennan heim haustið 1979. Ég verð að bíða jóla með að kynnast nýfrænkunni í eigin persónu. (MYND: Bróðír minn og frænka.)

Óvænt handbremsubeygja var tekin í atvinnumálum þegar mér bauðst starf á haustslátrunarvertíð hjá Nortura og byrjaði þar að saga niður lömb af krafti í gærmorgun sem er hin besta skemmtun. Ég er auðvitað ekki í slátruninni sjálfri heldur allri eftirvinnslunni og nú stefnir í ógurlega yfirvinnutörn þegar aðallambavertíðin byrjar í næstu viku. Lömbin þagna.

Ég fer úr einu stórfyrirtækinu í annað, hjá Nortura vinna um 6.000 manns eins og á sjúkrahúsinu, þar sem ég hóf moppu á loft í hinsta sinn á sunnudaginn, en staðsetningin er því miður ólík og er Nortura með kjötvinnslu sína uppi í Forus, örskammt frá þar sem við bjuggum fyrstu mánuði dvalarinnar. Strætisvagnasamgöngur eru því hafnar af krafti á nýjan leik.

Auk þessa er komið haust hér í Stafangri. Haustkoman er mjög afgerandi, einn daginn kemur haustið bara og þetta var á sunnudaginn fyrir viku. Einkum er þetta mælanlegt á auknu regni en reyndar var þó sól og blíða núna um helgina. Gróður er þó hægt og bítandi að taka á sig haustliti. Það er alltaf jafnhressandi.

Athugasemdir

athugasemdir