Mennt er máttur

hraunidÞað kom á óvart að frétta af því að Guðbjarni Traustason hefði skilað sér seint úr dagsleyfi undir kvöld í dag. Þegar menn hafa verið að læra til flugmanns á Hrauninu og hverfa svo óvænt gerir maður því auðvitað skóna að þeir komi sér úr landi á eigin vegum. Það virðist nefnilega vera svo að föngum sé kleift að læra ýmislegt á meðan þeir afplána sem gagnast þeim síðar í lífinu. Þannig lagði Tindur Jónsson stund á efnafræðinám í grjótinu og kom svo á fót þekktri efnaverksmiðju í Hafnarfirði ásamt Jónasi Inga líkfundarsérfræðingi og Guðbjarni lærði flug.

Nú mega lesendur ekki skilja þessi orð mín svo að ég leggist gegn því að fangar fái að nema ýmsa göfuga iðn við dvöl sína, það tel ég einmitt yfirvöldum fangelsismála til tekna að bjóða viðskiptavinunum upp á slíkt. Hins vegar fær maður trauðla varist því að brosa út í annað þegar námsgreinarnar ríma spaugilega vel við frelsisþrá og væntanlegan atvinnurekstur fanga. Nám í flugi og efnafræði bendir ótvírætt til þeirra hagsmuna sem þjóna föngum en hugsanlega síður umsjónarmönnum refsivörslu.

Hella Hueck, fréttakona hjá hollensku RTL-sjónvarpsstöðinni og ágæt vinkona mín, átti viðtal við Steingrím fjármálaráðherra klukkan sex í kvöld. Sagði hún ráðherra hafa vikist fimlega undan því að svara því hvað hann kæmi til með að kjósa í þjóðaratkvæðagreiðslunni á laugardag auk þess sem honum hefði orðið tíðrætt um þá byrði sem Icesave-samningar kæmu til með að skapa þjóðinni. Lítið tjáir hann sig þó um það hvað honum finnist um að feitasti Icesave-gúrúinn sóli sig á Kanarí og neiti að segja eitt orð við fjölmiðla um þá vítisvist sem hann dæmdi þjóðina í þegar hann vantaði meiri vasapeninga til að halda sín útrásarpartý í Hong Kong og víðar. Í þá daga átu íslenskir bankamenn gull í aðalrétt og þótti gott.

Ég bíð spenntur eftir að sjá umfjöllun erlendra fjölmiðla um komandi helgi hér á landi, okkar fyrstu þjóðaratkvæðagreiðslu síðan foreldrar mínir voru fimm ára. Hella Hueck ætlar að spjalla við Egil Helgason á morgun sagði hún mér áðan og spurði hvort ég þekkti hann. ‘Þekki ég hann?’ spurði ég, ‘Ég skrifaði BA-ritgerð hjá pabba hans og pabbi minn er kvæntur frænku hans!’ Þá held ég að hún hafi áttað sig á að samfélagið hér á landi elds og ísa er á stærð við evrópska smáborg.

Athugasemdir

athugasemdir