Menn hafa engu gleymt

prodigyRogalandsavisen og fleiri blöð slá því upp á forsíðum í dag að Rått og råde-hátíðin, sem haldin var í fyrsta sinn nú um helgina, sé komin til að vera. Um 12.000 manns djöfluðust við undirleik gömlu pilluætunnar Ozzy Osbourne á laugardagskvöldið sem við létum okkur nægja að hlýða á úr garðinum og kom þar glögglega í ljós að gamli Sabbath-mógúllinn hefur engu gleymt…sem er líklegast tómt bull, mun sennilegra er að hann muni ekki neitt. En hvað um það? (MYND: Þessi mynd segir náttúrulega ekki neitt en Prodigy á eftir að fá feitan rafmagnsreikning fyrir þessa tónleika…og ekki er rafmagnið ókeypis hér í Noregi.)

Við létum okkur nægja að vera viðstödd tónleika Prodigy á föstudagskvöldið í einmuna veðurblíðu og voru fjórmenningarnir frá Essex engu síðri en þeir voru þegar við sáum þá síðast í Laugardalnum 15. október 2004. Ég stóð við stóru orðin og mætti í sömu skóm á tónleikana núna. Flóra norskra rokksveita hitaði upp fyrir Maxim Reality og félaga og má þar nefna Skambankt sem eftirtektarverða tónlistarmenn en þeir koma héðan úr nágrenninu, frá Jæren sem er eitt af hinum sögulegu fylkjum Noregs er ekki teljast lengur stjórnsýslueiningar. Þar er kominn Jaðarr sem Snorri ritar um í Heimskringlu. Helgin var sem sagt þéttleiki út í gegn.
rogr
Sigurbjörn Bjarnason, búfræðingur og rafvirki, kom svo í heimsókn á sunnudaginn og setti upp mína eldfornu kúluljósakrónu sem þegar setti mikinn svip á stofuna. Fyrir utan handtak hér og þar er nú allt nánast frágengið fyrir innflutningsteiti laugardaginn 11. september sem vakið hefur verðskuldaða athygli en Julian Assange hjá WikiLeaks hringdi í dag og hótaði að leka gestalistanum sem hann segist hafa undir höndum. Hér verður að minnsta kosti íslenskt brennivín beint úr frystinum. (MYND: Tónleikasvæðið á Lassa stadion.)

Mér til mikillar ánægju kom svo Nígeríusvindlarabréf í tölvupósti um helgina. Ég var einmitt nýkominn yfir það áfall að Robert Mugabe kom aldrei á fund okkar á Café París í fyrra eftir að ég svaraði bréfi hans og gerði honum fundarboð. Í þetta sinn er það enginn annar en Peter Wong Tung, forstöðumaður Hanga Seng-bankans í Hong Kong, sem býður mér 30 prósent af tugum milljóna dollara viðskiptavinar síns sem dó og kvað ekki nógu skýrt um það í erfðaskránni hverjir ættu að erfa auðæfin. Maður hálfvorkennir bankanum.
rxrii
Það besta er að nú eru þessir snillingar farnir að nota Google Translate við háfleyg skrif sín og ég get ekki annað en deilt þessari frábæru setningu með lesendum: ‘Seint vipskiptavinur okkar gerpi fasta innborgun magn af US $ 20,500.000.00 en ekki lýsa yfir hvapa apstandendur i hvapa vinnu pappir hans. Vip skal deila i hlutfpllunum 30% fyrir pig og 70% fyrir mer.’ (MYND: Hitað upp á svölunum. Þetta er ekki Eyjólfur Kristjánsson þótt svo megi telja, heldur Egill Páll Egilsson frá Húsavík.)

Ekki málið, Peter Wong Tung, ég geng að þessu strax. Bréfið gæti þannig séð verið frá Arion banka fyrir utan að Google Translate þekkir hvorki ð né ö og setur þá af einhverjum ástæðum p í staðinn.

Athugasemdir

athugasemdir