Menn eru alltaf að kanna þessi bisefni

Fréttir af stórvirkri kannabisverksmiðju á Kjalarnesinu minna um margt á hinn goðsagnakennda Tennessee Pot Cave, þar sem löggæslumenn mundu varla eftir annarri eins hugmyndaauðgi á bak við ræktun plantna. Þar var fjöldi manns í vinnu og allt falið í gríðarstórum helli undir einbýlishúsi skammt frá hinni fornfrægu Nashville. Öryggismyndavélar voru um allt, flóttagöng og aðstaðan þannig að ekkert verkalýðsfélag hefði getað vælt yfir neinu. Hita- og rakastigi var stýrt með sérstökum búnaði og ekkert hefði í raun getað komið upp um starfsemina…nema einbýlishús sem notaði rafmagn á við lítið álver.tennesse

Lögreglan rannsakaði málið í fimm ár áður en látið var til skarar skríða. Þeir voru sannfærðir um að umfangsmikil framleiðsla marijúana ætti sér stað á svæðinu en það var ómögulegt að átta sig á því nákvæmlega hvar hún færi fram. Framleiðslugeta Tennesse-verksmiðjunnar var 160 kílógrömm af marijúana á átta vikna fresti sem er bærilegt magn.

Fred Strunk hét maður sem var handtekinn sem höfuðpaur Tennessee-verksmiðjunnar. Hann átti og rak arðbært fyrirtæki í Flórída en átti um leið ansi mörg vegabréf og gekk undir ýmsum nöfnum. Að lokum var hægt að tengja Strunk við tvo samstarfsmenn, Brian Gibson og Greg Thompson, og hlutu allir þrír dóma fyrir ræktunina. Hellirinn var rúmlega þriggja kílómetra langur og sumir lögreglumannanna sem unnu að rannsókninni mundu eftir að hafa leikið sér í honum sem börn. Strunk byggði einfaldlega reisulegt einbýlishús yfir hellinn, útbjó hann af kostgæfni og gætti þess að vera nánast aldrei á staðnum. Fjöldi Mexíkóbúa starfaði við ræktunina og var kaffiaðstaðan þeirra sögð á pari við aðstöðu FL Group í Síðumúla á meðan allt lék í lyndi.

Kjalarnesverksmiðjan virðist hafa dregið vatn úr brunni hellis Fred Strunk. Amerískt hugvit á Íslandi.

 

 

Athugasemdir

athugasemdir