Meira um Moggann – jákvæðara núna

profarkalesturÉg er ekki haldinn einhvers konar Mogga-blæti (e. fetish) en sá mig knúinn til að senda Velvakanda Morgunblaðsins neðangreint eftir að hafa lesið grein þar í blaði dagsins. Þeir, sem eru ekki áhugamenn um íslenskt mál, eru varaðir við eftirfarandi lesefni. (MYND: Prófarkalestur, hinstu rök hvers fjölmiðils.)

Ingunn Sigmarsdóttir ritar ágæta grein í Velvakanda 6. júlí, ræðir þar um málfar á síðum Morgunblaðsins, sem hún telur hafa hnignað stórum frá fyrri tíð, og nefnir dæmi um ambögur og óvandað málfar. Sá sem hér ritar starfaði sem prófarkalesari á Morgunblaðinu árin 2000 – 2001, blaðamaður árið 2003 og átti góðar stundir á blaðinu. Það er rétt hjá Ingunni að málfari í fjölmiðlum almennt hefur hrakað ískyggilega hin síðari ár, þar sem þó æva skyldi, og gildir þá einu hvort prent- eður ljósvakamiðlar eru þar taldir til.

Ingunn óskar eftir blaðamönnum sem kunna að skrifa íslensku og vissulega eru slíkir gulls ígildi. Síst mæðir þó minna á prófarkalesurum fjölmiðla en þeim sem fréttatextann skrifa og má segja að prófarkalesarinn standi í fremstu víglínu milli neytenda fjölmiðla og blaða- eða fréttamanna. Vísa mætti til sambandsins milli prófarkalesarans og blaðamannsins með kunnum orðum Winstons Churchill forsætisráðherra um orrustuna um Bretland: „Sjaldan hafa svo margir átt svo fáum svo mikið að þakka.“

Hins vegar er það nöturleg staðreynd að prófarkalesarar eru gjarnan sú stétt sem snemma fær að finna fyrir niðurskurðarhnífnum í hallæri og er þeim miskunnarlaust fórnað á altari neikvæðra ársreikninga. Framleiðsla fréttaefnisins sjálfs er almennt talin mikilvægari en framsetning þess, að því er oft virðist.

Ingunn fer þó á einum stað með fleipur og telur undirritaður sér hvort tveggja ljúft og skylt að taka upp hanskann fyrir sinn gamla vinnuveitanda. Fyrsta dæmið sem hún nefnir, „…þeim sem langar í styrju…“, er ekki að finna á blaðsíðu fjögur í fylgiblaðinu Landi&Sögu frá 3. júlí heldur á blaðsíðu fjögur í Morgunblaðinu sjálfu sama dag og fjallar um styrju sem verið var að koma fyrir í tjörn hjá Sævari Karli. Í heild sinni hljóðar setningin svona: „Þeim sem langar í styrju eða fisk í tjörn er bent á að hafa samband við Gunnar Helgason hjá gæludýrabúðinni Dýragarðinum.“

Við þessa setningu er ekkert rangt. Þarna er á ferð innskotssetning og hljómar setningin utan um hana svo: „Þeim […] er bent á að hafa samband við Gunnar Helgason…“. Þetta er hárrétt beyging en heppilegt hefði verið að afmarka innskotið með kommum. Í heildina er ég þó sammála málflutningi Ingunnar enda villurnar oft fljótfærni ein sem laga hefði mátt með því að blaðamaður læsi yfir texta sinn og færri prófarkalesarar fengju uppsagnarbréfið þegar harðnar á dalnum.

Athugasemdir

athugasemdir