Með lögum skal land byggja…

lgreglustjarnaFramkoma ríkisvaldsins gagnvart lögreglumönnum er ótrúlegur dónaskapur svo ekki sé meira sagt. Þeir eru dregnir á kjarasamningum í fáránlegan tíma og fá svo gerræðislegan gerðardóm eins og blauta tusku í andlitið í skjóli verkfallsbanns. Enn einu sinni sannar þessi óstjórn sem kallar sig ríkisstjórn að hún er ekki meira virði en hlutabréf í FL Group árið 2008. Þó situr þetta fólk á þingi og gumar af því í fjölmiðlum að standa í stórræðum við að bjarga landinu og loka fjárlagagatinu. Þetta lið gæti ekki lokað dyrum hvað þá meira.

Nú ættu íslenskir lögreglumenn að senda inn skæðadrífu uppsagnarbréfa og vekja ugg stjórnarherranna góðu sem vita að það er ekkert grín að manna þessa stétt almennilegu fólki (þótt ekki nái vitið annars mikið lengra).

Eins er tilvalið að benda á það hér að norsk lögregluembætti auglýsa um þessar mundir eftir tugum lögreglumanna í alls konar stöður. Íslendingar eru fljótir að ná norskunni og kunna margir Skandinavíumál fyrir sem hjálpar mjög. Hérna er starfasíða politi.no, 64 laus störf hjá norsku lögreglunni eins og er og verða ábyggilega fleiri. Sennilega er fínt að vera í löggunni í Noregi, að minnsta kosti er lögreglufólk hérna í Stavanger einstaklega almennilegt og þægilegt í viðmóti og virðist sátt í starfi sínu. Sá sem er sáttur í vinnunni er sáttur býsna stóran hluta lífsins, að minnsta kosti átta af hverjum 24 tímum (sjö og hálfan í Noregi:).

atlisteinn.is sendir íslensku lögreglufólki baráttukveðjur.

Athugasemdir

athugasemdir