Það er hvorki meira né minna en MAX1 bílavaktin sem er klósett vikunnar að þessu sinni. Þau dusilmenni slá Euroshopper hér að neðan margfalt út með svínslegum viðskiptaháttum sínum. Nýjasta viðskiptafléttan hjá MAX1, sem er í eigu Volvo-jöfursins Brimborgar, er nefnilega að gefa verð vöru og þjónustu upp án virðisaukaskatts. Löglegt en gjörsamlega siðlaust. Nú er ekki verið að halda því fram að atlisteinn.is sé einhver siðapostuli en þegar kemur að réttindum neytenda rennur gamla blóðið beint til skyldunnar. Ég mætti þarna keikur á Volvoinum í fyrradag til að láta skipta um peru í framljósi. Ekkert stórmál. Ég spyr um kostnaðinn og ekki stendur á svörum: Pera 1.500 kall, vinna 310 krónur.
Ég vatt mér í málið, ekki vil ég vera ólöglegur í umferðinni, og keypti að auki 2,5 lítra af rúðuþvagi á sértilboði, 322 krónur (hræódýrt miðað við N1 sem tekur 250 fyrir lítrann). Mér er afhentur reikningur upp á 2.503 krónur og þótt stærðfræði hafi aldrei verið mitt besta fag (guð veri vitni mitt um þá ömurð sem ég lét frá mér fara í tímunum hjá Karli Valgeiri Jónssyni í Garðaskóla á níunda áratugnum!) skynjaði ég fljótlega að 1.500 + 310 + 322 verða seint 2.503 krónur. Við afgreiðslumaðurinn lögðumst í efnahagsrannsóknir og hvað kemur í ljós? Jú jú, fjögur hundruð og eitthvað krónur í virðisaukaskatt. Endilega ekkert að vera að nefna það þegar viðskiptavinurinn spyr upphaflega. MAX1 er 4. gráðu klósett atlisteinn.is þessa vikuna. Til hamingju.