Mannhaf

minningarathMikið sjónarspil var að fylgjast með tæplega 100.000 manna minningarsamkomu hérna niðri í miðbæ í dag. Hún var liður í samræmdum samkomum um allt land og fór sú stærsta fram í Ósló þar sem 150.000 komu saman á Ráðhústorginu. Ég man ekki eftir annarri eins kös nema frá fjölmennustu menningarnóttum í Reykjavík og þó reyndar varla. Tvívegis hef ég verið í miðbæ Stavanger á þjóðhátíðardaginn 17. maí en fjöldi miðbæjargesta þá komst ekki nálægt því sem var í dag.
minningarathii
Til að kóróna þetta var fínt veður, sólskin og hiti og sjórinn var sléttur og blár, eins og skáldið orti. Borgarstjórinn og biskupinn fluttu ávörp en eftir það komst hreyfing á mannhafið og heljarmikil blysganga gekk fylktu liði meðfram Breiavatnet. Allt var þetta ótrúlega tilkomumikið, eins og þögnin í hádeginu, og sýnir þá miklu samstöðu sem einkennir norskt samfélag á ögurstundu. Ég fékk beiðni frá DV um grein og myndir af þessu fyrir blaðið á morgun og varð góðfúslega við því. Sennilega fer þetta á vefinn hjá þeim líka svo ég ætla ekki að vera að endurtaka mig mikið hér en þetta var alveg ótrúleg upplifun. Að vera í Noregi síðustu daga jafnast nánast á við heilt doktorsnám í félagsfræði. (MYND: Blysganga frá dómkirkjunni og meðfram Breiavatnet beggja vegna. Stórkostleg sjón.)
minningarathiii
Ég hef ekki skrifað um neitt nema fjöldamorð hérna síðan í fyrradag, kominn tími á ritstjórnarfund. Ég rakst á bráðskemmtilegt viðtal úr Fréttablaðinu með fyrsta kaffibolla í morgun. Þar ræðir minn gamli skólabróðir úr Garðabænum, Jón Sigurður Eyjólfsson skáld og lífskúnstner, við Einar Magnús Magnússon, upplýsingafulltrúa Umferðarstofu, sem reynist heldur betur hafa lifað tvöföldu lífi og þrætt amerískt malbik á Harley Davidson eins og enginn væri morgundagurinn…eða Umferðarstofa. Mjög skemmtileg lesning eins og Jóns Sigurðar er von og vísa. Birtist einnig hérna á Vísi og er óhætt að mæla með sem öruggu þunglyndislyfi, til dæmis fyrir fólk eins og mig sem er nýkomið úr sumarfríinu og enn þá í losti yfir bláköldum raunveruleikanum.

Athugasemdir

athugasemdir