atlisteinn.is stendur að vanda við stóru orðin og birtir hér myndband sem sýnir ritstjórann bragða á sínum fyrsta bita af hefðbundnum norskum lutefisk með tilheyrandi meðlæti; kartöflum, baunastöppu, sinnepssósu og beikonbitum í bráðnu smjöri. Ég hef oftar en einu sinni og oftar en tvisvar skrifað hér um lutefisk sem er eins konar svar Norðmanna við kæstri skötu okkar Íslendinga. Þarna er á ferð þorskur sem verkaður hefur verið með baneitruðum lút, eða ösku af birki, og er því næst útvatnaður í tíu daga áður en hans er neytt. Bjór og staup af ákavíti eru hefðbundin drykkjarföng með lutefisk en þar sagði ég hingað og ekki lengra og fékk mér kalt hvítvín.
Fiskurinn sjálfur var reyndar ekki sá óbjóður sem mér bauð í grun en allur þessi haugur af meðlæti hefur sennilega verkað sem morfín á bragðlaukana. Norðmenn eru gríðarlega harðir þegar kemur að matarhefðum og hrófla ekki við nokkru sem tíðkast hefur um árhundruð ef þeir komast hjá því – svolítið eins og ég sjálfur.
Kæsta skötu smakkaði ég einu sinni, á Þorláksmessu 1999 í Höfðakaffi. Þá var ég á þriðja ári í íslenskunni í HÍ en veturinn skiptist þannig að ég tók tvær og hálfa einingu á haustönn en 22 og hálfa á vorönninni. Notaði ég því tækifærið um haustið og fékk mér vinnu á hjólbarðaverkstæðinu Höfðadekki þar sem ég skipti um og gerði við gúmbarða sjálfrennireiða landans dægrin löng undir járnaga Sævars Þórs Magnússonar, mikils ágætismanns sem hafði nýverið keypt verkstæðið af fyrri eiganda. Á þessum vinnustað spannst veðmál við vinnufélagana um það hvort ég hefði það í mér að sporðrenna bita af kæstum skötudjöfli á Þorláksmessu í Höfðakaffi þar sem við snæddum jafnan dögurð.
Mér svall auðvitað móður og ólmur af bræði skundaði ég á Höfðakaffi í hádeginu þessa sólbjörtu Þorláksmessu 1999 og eggjaði mig allan til skötunnar. Hálfur vígamóðurinn rann reyndar af mér þegar ég gekk inn um dyrnar og fann djöfullegan fnykinn í loftinu. Ég lét þetta þó ekki skjóta mér ref fyrir rass enda átti ég á þessum tíma 140 kíló í bekk og kallaði ekki allt ömmu mína. Til öryggis sótti ég mér þó þrjú djúsglös og stóra sneið af skúffuköku eftir að ég hafði tekið við illa lyktandi skötuhelvítinu ásamt hamsatólg af glottandi matráði Höfðakaffis.
Því er skemmst frá að segja að ég kom niður fyrsta bitanum af skötunni. Tók ég þá að kúgast sem étið hefði óðs manns saur en bjargaði mér fyrir horn með djúsglösunum þremur og skúffukökunni. Ekki var meira snætt það hádegið en ljúffengur Lucky Strike-vindlingur þess í stað tendraður úti fyrir en þetta var nákvæmlega hálfu ári áður en ég hætti að reykja, guð sé lofaður.
Nú, rúmum áratug síðar, þegar ég hef öðlast þekkingu til að bera saman lutefisk og kæsta skötu get ég staðfest að skatan er verri. Þar með er ekki sagt að lutefisk sé góður, hann er bara öðruvísi.