Loksins febrúar!

ripAlltaf finnst mér það huggulegur tími þegar janúar lýkur, með fullri virðingu fyrir öllum afmælisbörnum mánaðarins og öðrum sem eiga um sárt að binda. Mér finnst þetta bara ekki spennandi mánuður og gleðst að jafnaði 1. febrúar sem er auk annars afmælisdagur þessa vefseturs sem fór í loftið 1. febrúar 2009.

Sem dæmi um ömurlegan janúardag og mánudag þar að auki nefni ég síðasta mánudag, 30. janúar. Þann dag var eiginlega ekkert gott nema maturinn í mötuneytinu hjá ConocoPhillips og sú staðreynd að ég sofnaði eldsnemma um kvöldið. Annað stóð á brauðfótum. Strætisvagn númer 9 ók ranga leið með þeim afleiðingum að ég missti af honum en sá hann þó aka hjá í 200 metra fjarlægð (klukkan 15:46, 16:16 og 16:46 á hann að aka Risavika Havnering en ekki Tananger Ring og taka þar með upp fólk sem er að ljúka vinnu hjá olíufyrirtækjunum… æ, ég nenni ekki að fara dýpra í þetta). Þetta kostaði langa og ömurlega töf á ferðalagi mínu í ræktina þar sem tekin var ógurleg bekkpressuæfing í strætó-reiðikasti. Ágætt reyndar þegar upp var staðið.

Næsta áfall var að ég reyndist hafa gleymt að taka með mér handklæði. Það hefur ekki gerst árum saman. Í stað þess að fara í sturtu og labba svo um þangað til ég þornaði ákvað ég að sleppa sturtunni og fara lyktandi eins og skunkur á barinn Alexander og fá mér kaffibolla á meðan ég biði eftir að frúin lyki sinni sturtu.

Þetta gerði ég og var næstum kominn í gott skap þegar ég fékk rjúkandi kaffibolla á borðið fyrir framan mig. Barþjónninn náði þó að eyðileggja það þegar ég bað um mjólk í kaffið. Með þaulæfðri handahreyfingu tók hann upp pappírsstauk með þessu helvítis dufti sem á að koma í staðinn fyrir mjólk, tæmdi hann ofan í bollann og gjöreyðilagði kaffið mitt. Norðmenn eru alveg harðir á því að fólk eigi annaðhvort að nota rjóma eða þennan duftviðbjóð út í kaffi…eða allra helst drekka það svart. Ég nota mjólk og vil nota mjólk sem hefur oft kostað mig ómælda fyrirhöfn þegar ég er einhvers staðar annars staðar en heima hjá mér.

Mesta furða var að maður kæmist heim heilu og höldnu eftir þessar raunir sem síðasti mánudagur janúar lagði mér á herðar. Eins og þetta allt sé ekki nóg er ég búinn að vera edrú í mánuð og á eftir að vera það tvo mánuði til!

Það er þó að minnsta kosti vor í lofti og sólargangur allur að lengjast. Eins gott kannski.

Athugasemdir

athugasemdir