Fyrirsögn þessa pistils er eina veðurlýsingin sem Snorri gamli splæsti í Heimskringlu og er hana að finna í Ólafs sögu helga. Nú tipla ég á tánum um vefsetur norsku veðurstofunnar og vona að glæsileg helgarspá gangi eftir í einu og öllu, til mikils er að vinna, fertugsafmæli í miðbæ Stavanger en fáir staðir bjóða upp á skemmtilegra umhverfi og meiri stemmningu í góðu veðri. Ekki er sjálfgefið að fólki hlotnist einmuna veðurblíða hvort tveggja á brúðkaupsdaginn sinn og þegar það heldur upp á stórafmæli en ég eygi nú þann möguleika í mínu lífi og þyl bænir í hljóði. Guli þríhyrningurinn efst til hægri í dálki dags táknar nokkra óvissu og sá rauði algjöra óvissu.
Eftir gleði helgarinnar neyði ég mig í röggsama gírinn og sest við próflestur annað vorið í röð. Þetta er auðvitað engin hæfa þegar fólk á miðjum aldri á í hlut en engu að síður hyggst ég bretta upp ermarnar rétt einu sinni og í þetta skiptið taka sveinspróf (svokallað fagbrev) í vöruflæðisstjórnun í því augnamiði að færa mig upp um hæfnisflokk í atvinnulífinu. Ekki telst um geimvísindi að ræða, fimm klukkustunda skriflegt próf er haldið 6. júní og nái ég að sletta á mig skinninu (eins og það var nefnt til forna þegar illa uppfrætt barn var fermt) þreyti ég eins dags verklegt próf í vinnunni einhvern tímann þegar Rogaland Fylkeskommune þóknast að senda prófdómara sem verður líklega ekki fyrir sumarfrí þekki ég norska stjórnsýslu rétt. (MYND: Dæmigerð miðbæjarstemmning í blíðviðri í Stavanger.)
Allt ferlið er þó í raun flóknara. Sá, sem hyggst verða sér út um fagbrev eftir öðrum leiðum en hefðbundið norskt skólakerfi býður upp á og er að gaufa þetta á fullorðinsárum, þarf að fara leið sem er ekki ósvipuð og sí-/endurmenntun á Íslandi og nefnist hér voksenopplæring. Þá er, auk skriflegs og verklegs prófs, gerð sú krafa að kandídat eigi að baki samtals 60 mánaða starf innan fagsins á síðustu tíu árum og leggi fram viðeigandi gögn þar um frá vinnuveitendum. Í mínu tilfelli er þetta tímamark uppfyllt með samtvinnun starfs míns hjá tollstjóra á Íslandi og þeirra tæpu þriggja ára sem ég á að baki hjá núverandi vinnuveitanda. Allt er þetta álíka brigðult og veðurspáin hér að ofan en hver veit nema plaggið liggi einhvern tímann á haustmánuðum.
Senn líður að stystu Íslandsheimsókn fyrr og síðar. Laugardaginn 17. maí birtist ég fósturjörðinni með stífa dagskrá upp á vasann, afritun á hörðum diski hjá Rikka snillingi, hádegisverð hjá Erlendi vini mínum, meistarakokki í Veiðikofanum, hreinsun flatkakna og annarra nauðsynja út úr Bónus og að lokum 25 ára útskriftarafmæli 1989 árgangs Garðaskóla um kvöldið. Jafnvel að náist kaffibolli hjá Kára bróður og pabba en þá fer nú líka alveg að slaga í skráningu hjá Guinness fyrir fjölda aðgerða á sólarhring. Hvað sem úr verður er dagljóst að um ánægjulega heimsókn verður að ræða á meðan Norðmenn drekka sig óða á þjóðhátíðardaginn og fagna 200 ára afmæli stjórnarskrár sinnar þar sem konungi var meðal annars tryggt vald til að sammenkalde Tropper, begynde Krig og slutte Fred (26. gr.).