Við skelltum okkur á tvo DeLonghi-ofna í Expert í haust, þetta eru olíufylltir rafmagnsofnar sem kosta 299 krónur stykkið. Mjög meðfærilegir og auðvelt að trilla þeim milli herbergja. Annar er í stofunni og rúllar þaðan inn í svefnherbergi þegar við förum að sofa en hinn stendur í ganginum/forstofunni þar sem ég sit við tölvuna.
Þetta er ekki vitlaus fjárfesting þótt þeir komi kannski ekki alveg í staðinn fyrir varmadæluna okkar dásamlegu sem glöggir lesendur muna vafalítið eftir frá Overlege Cappelensgate. Með því að hafa ofnana stillta á 5 (af 6 mögulegum) halda þeir jöfnum 23 gráða hita í 90 m² íbúð (a.m.k. á meðan ekki er brunagaddur úti sem verður nú sjaldan hér). Við þetta hækkar rafmagnsreikningur úr 319 krónum í ágúst (engin kynding og bara hefðbundin notkun eldavélar, þvottavélar og ljósa) í 777 krónur fyrir október sem verður að teljast hóflegt. Allt undir þúsundkalli á mánuði í rafmagn á veturna er býsna vel sloppið.
Pakking, sikring og transport av last-námskeiðið fór betur en á horfðist í fyrstu. Dagur tvö, fimmtudagurinn, var reyndar ömurlegur. Við vorum úti í skítaveðri frá 08 til 17 að pakka alls konar varningi í ýmsar tegundir gáma. Reyndar vorum við inni í vinnusal á meðan hlutirnir voru festir á vörubretti en annað fór fram utandyra og notast við tvo lyftara til að hlaða brettunum í gáma. Ég var nánast eingöngu á þeim eldri, gömlum TCM-jálki sem læðist að mér að sé hreinlega einn af fyrstu lyfturum sögunnar og ekki var nú plássinu fyrir að fara, ég varð sífellt að gæta þess að rota mig ekki með eigin hné við að flytja fótinn af olíugjöfinni yfir á bremsuna sem stóð mjög hátt. Skyggnið út úr þessum forngrip nálgaðist að vera ekkert og voru aðrir þátttakendur á námskeiðinu því jafnan í lífshættu. (MYND: Fyrsti lyftari á Norðurlöndum að því talið er, fannst við uppgröft hjá Osebergskipinu í Tønsberg og er talinn vera frá um 820 e. Kr. eins og það.)
Verklegi hlutinn byrjaði með skelfingu. Við Torkjel teymisfélagi minn í liði B1 féllum á fyrsta verkefninu þar sem krókur á festistroffu losnaði bak við eitt brettið en kræktist í næstu stroffu svo strekking hélst á þeirri fyrri og villti okkur þar með sýn. Torkjel þessi er frá Folldal í fylkinu Hedmark, sennilega fyrsti maður sem ég hitti þaðan. Hann er brønnmekaniker á borpalli hjá ConocoPhillips og mælir á stórmerkilegri mállýsku, einhvers konar blendingi af norðlensku og austlensku og alltaf oss í stað vi, skal oss gjøre det sånn? Helflott.
Fall er fararheill segir máltækið og þegar upp var staðið eftir fimm tíma af bóklegu og verklegu prófi á föstudaginn urðum við Torkjel hæstir í verklega með þrjár sexur (einkunnaskalinn er 0 – 6) á meðan helstu keppinautar okkar, lið B2, varð að gera sér 6-5-6- að góðu. Glimrandi! Ég mátti svo sætta mig við tvær villur í bóklega prófinu en útskrifaðist þó að minnsta kosti og kom dauðfeginn heim í helgarfrí. Ekki eins og maður sé sloppinn samt, þetta námskeið þarf ég að taka á fimm ára fresti svo lengi sem ég starfa innan norsks olíuiðnaðar.
Ég rakst á eftirfarandi eðlisfræðidæmi úr Verslunarskólanum þegar ég var að leita að einhverju allt öðru á Google. Hvílíkt hugmyndaflug!!
Bóndi nokkur hyggst draga svín upp á vörubílspall í 1,10 m hæð, með því að nota hallandi planka sem er 3,0 m á lengd. Núningsstuðull er 0,55.
a) Hver er halli skáflatarins?
b) Hver er togkrafturinn í bandinu ef svínið er 180 kg?
Gamli núningsstuðullinn!