Lömbin þagna

saudurMeira viðeigandi fyrirsögn er varla hægt að setja á síðustu dagana í lífi mínu. Á laugardagsmorguninn var lambalærum dælt í mig í fimm klukkustundir samfleytt til pökkunar. Þúsund þorskar á færibandinu þokast nær. Það er alveg hreint magnað hvað hægt er að framleiða af sauðfé í Noregi og það sem meira er, norskir sauðir eru með HALA í stað hins góðkunna íslenska dindils. Þar að auki segja þeir ekki meee heldur beeehhh sem er ákaflega skelfilegt hljóð.

Það fer sum sé ekki mikið fyrir frítíma í lífi mínu þessa dagana en vinnuvikan nær 70 tímum sem er ákaflega ónorskt. Til þess að fá að stunda slíkan skepnuskap þarf viðkomandi fyrirtæki að sækja um sérstaka undanþágu til stéttarfélaga og ég veit ekki hvað. Öll undanskot frá 37,5 tíma vinnuviku eru litin miklu hornauga í hinni djúpu norsku jafnaðarstefnu. Ég veit ekki hvort þetta er gott eða slæmt.

Pabba finnst ég skrifa allt of mikið um drykkju mína svo nú ætla ég að skrifa um veðrið. Ég hef keypt mér mína fyrstu regnhlíf og er ekki vanþörf á. Haust í Stavanger er rigning og aftur rigning. Svo kemur kalt vetrartímabil mánuðina desember til mars er mér tjáð en eftir það rís nýtt sumar úr sæ. Haustið er tiltölulega notalegt, um helgina kveiktum við upp í arninum í fyrsta skipti og ljóst er að sú athöfn verður daglegt brauð héðan í frá. Fátt er unaðslegra en að sitja með gi….fyrirgefðu pabbi, sítrónute og reykelsi, fyrir framan arininn og hlusta á regn hamast á þekju á meðan beðist er fyrir af krafti.

Hrottalegur raunveruleikinn mætir svo sem blaut tuska í andlit þegar maður þarf að taka strætó númer 3 klukkan tæplega hálfsjö að morgni til þess að saga niður lömb í skjannabjörtum sal dauðans þar sem lögbundið hámarkshitastig er tólf gráður og einfaldir hlutir á borð við salernisferðir krefjast fataskipta og langs göngutúrs. Eins er það skammgóður vermir að segjast vera með pípandi niðurgang því þá er maður sendur til læknis og svo oftast rekinn þar sem steinsmuga, búksorgir og þúfnalúra eru í norskum kjötbransa sem múslimi dulbúinn sem bókstafstrúaður gyðingur í strætó í Jerúsalem…hættuleg.

Ég er búinn að skrópa aðeins á íslensku fjölmiðlavaktinni en sá í fyrradag að Árni Páll er orðinn viðskiptaráðherra. Það hefur sem sagt enginn lært nokkurn skapaðan hlut þarna við Austurvöllinn. Hvað gerist næst, verður Björgólfur Guðmundsson fjármálaráðherra?

Athugasemdir

athugasemdir