Líkamsrækt og latínukveðskapur

rodunBúslóðaröðun hvílir á okkur af slíkum þunga þessa dagana að hún kostar eina rauðvínsbelju á dag til að gera þetta bærilegt. Fyrir utan þetta er vinna og líkamsrækt svo við kvörtum ekki yfir tímaskorti. Eftir flutning erum við farin að æfa í SATS niðri í miðbæ sem er stærri stöð en stöðin í Forus og betur tækjum búin. SATS notar aðallega tæki frá TechnoGym sem er fín lína auk þess sem úrvalið af handlóðum er alveg frábært. Handlóð upp í 20 kíló hlaupa á eins kílós bili en eftir það á tveggja kílóa alveg upp í 60. Hjá Bjössa fann ég mest fyrir því að bilið var 2,5 kíló eftir 10 kílóa lóð sem gat verið óþægilegt við sumar æfingar. Kviðæfingabekkjum má halla með stilligræjum og gera magaæfingar að hreinu logandi helvíti…sem er auðvitað hin besta skemmtun. (MYND: Fátt hefur batnað í stofunni síðan við fluttum…jú, maður greinir örlítinn dagamun.)

Nú hefur það verið mælt að héðan tekur fimm mínútur að hjóla í ræktina niðri í bæ og níu mínútur til baka. Heimleiðin er sem sagt öll upp í móti en þá er hjólað upp Våland-hverfið, um Muséegate sem minjasafn Stavanger stendur við, og upp á efsta punkt Våland þar sem sjúkrahúsið stendur og húsið okkar. Þetta er glimrandi staðsetning. Komi letiköst upp stoppar strætó 11 nánast við dyrnar hjá okkur og ekur beint niður í bæ og til baka.

Fram undan er helgarfrí sem skín eins og vin í Góbíeyðimörk saurfylltra salerna og rúmfataskipta. Eftir það á ég þrjár helgarvaktir í röð og vil sem minnst um það hugsa. Þær verða þó á öðrum deildum en það er svo sem aukaatriði. Maður tekur þó helgarvakt sé hún í boði. Tvöfalt kaup gerir það að verkum að ein helgi er maki fjögurra virkra daga í launum. Svo fer nú hægt og rólega að draga nær endalokum starfa okkar á sjúkrahúsinu. Ég fer þó ekki ofan af því að þarna var ágætt að stíga fyrstu skrefin á norskum vinnumarkaði, að minnsta kosti erum við fullfær á norska tungu núna eftir að hafa átt í ótal samræðum við misgamla sjúklinga frá nánast öllum fylkjum Noregs og með tilheyrandi framburðarflóru. Umræðuefnin hafa snúist um allt frá frumvarpi (sem sagt fyrstu hægðum) dagsins til makrílverkunar og -matreiðslu en sá fiskur er Norðmönnum sem kýr Indverjum, rammheilagur. (MYND að neðan: Nei, ég er ekki kominn með tremma en þessi tignarlegi bleiki fíll blasti við af svölunum hér á Overlege Cappelensgate í kvöld. Er DV hætt með sumarmyndasamkeppnina?)
bleikurfill
Ég dró eina af mínum helstu gersemum upp úr kassa hér í gærkvöldi, örsmátt kver eftir Björn prófast Halldórsson í Laufási sem heitir Latnesk-íslenskar vísur. Einar Guttormsson gaf út árið 1942. Vísurnar eru glósur fyrir latínugrána og kemur latneskt orð fyrst en það íslenska á eftir og allt í bundnu máli. Þetta er kver í litlu broti upp á 32 síður og tvær vísur á síðu. Hér eru tvær perlur:

Campus völlur, quercus eik,
culmen tindur, assum steik,
cunæ vagga, vitrum gler,
vermis ormur, saxum sker.

Saga völva, virtus dygð,
vallis dalur, maeror hryggð,
ovis sauður, acus nál,
aper göltur, calix skál.

‘Þar sem blautfiskinum sleppir á Íslandi tekur latínan við,’ skrifaði Kiljan í Brekkukotsannál. Með því býð ég góða nótt og segi calix…eða skál!

Athugasemdir

athugasemdir