Lifur Steve

severedÉg var með pistil á Bylgjunni í morgun um hvort Steve Jobs Apple-forstjóri hafi borgað sig fram fyrir 16.000 manna biðlista eftir lifrarígræðslu. Pistilinn má heyra á síðu Bylgjunnar og lesa undir ‘Pistlar’ hér á atlisteinn.is (sem er reyndar mun fljótlegra). Þetta var svona hæfilega létt og fróðlegt pistlaefni eins og ég reyni yfirleitt að hafa og fengið úr mjög fróðlegri grein CNN. Auðvitað var þetta ekkert grín fyrir Steve sjálfan en hann býr nú svo sem ekkert við hliðina á mér. (MYND: Lifrarígræðsla í boði dauðarokksveitarinnar Autopsy.)

Greinin, sem er eftir Ray Hainer, blaðamann CNN, vakti mig hins vegar til umhugsunar. Lifrarígræðsla er ekki beint eins og að fara til tannlæknis og fá nýja fyllingu. Í Bandaríkjunum bíða 16.000 manns eftir að fá þetta áfengisvinnslutæki grætt í sig og aðgerðin kostar litla 519.600 dollara, 66,5 milljónir króna á gengi dagsins í dag sem verða sennilega 75 milljónir á morgun miðað við sigurgöngu krónunnar.

Þá spila óteljandi þættir inn í það hvort þú fáir lifur, hvar þú fáir hana og hvort líkami þinn sætti sig við hana. Myndir þú, lesandi góður, til dæmis sætta þig við lifur úr barnaníðingi, útrásarvíkingi eða fyrrum bæjarstjóra Kópavogs? Tækirðu við lifrinni úr mér sem er eins og sæbarið blágrýti ef ekki verri? Í öllum Bandaríkjunum er þessi aðgerð aðeins framkvæmd á 127 sjúkrahúsum og reglurnar sem gilda um hvar menn lenda á biðlistanum illræmda eru margþættar. Hve veikur ertu, hvernig passarðu við hugsanlegan lifrargjafa, kaustu Samfylkinguna, áttu peninga? Spurningarnar eru ótalmargar.

Hver er boðskapur þessarar greinar? Passaðu upp á helvítis kvikindið, þetta slímuga, hlaupkennda en þó lífsnauðsynlega kvikindi vex ekki á trjánum…nema þú heitir Steve Jobs.

Athugasemdir

athugasemdir