Klukkan 11 í morgun að íslenskum tíma útskrifaði Kristín Ingólfsdóttir rektor mig með MA-próf í blaða- og fréttamennsku. Ég var steinsofandi og þar að auki ekki á landinu. Þar með hefur Háskóli Íslands ungað mér út þrisvar sinnum, árin 2000, 2002 og 2010. Allt er þegar þrennt er vona ég. Ég hef aðeins verið við eina útskriftarathöfn en það var hinn sólríka laugardag 24. júní 2000. Þá voru allir útskriftarnemendur saman við athöfnina, alls 565 (minnir mig) sem var metfjöldi þá. Í dag útskrifuðust 1.780 manns frá skólanum og var athöfnin tvískipt milli grunn- og framhaldsnema. (MYND: Sendill frá DHL kom færandi hendi með sendinguna frá nammi.is sem þá hafði farið um England, Þýskaland, Danmörku og loks hingað.)
Páll Skúlason, þáverandi rektor, hélt 17 mínútna ræðu sem reyndar virkaði nokkuð lengri í þeim þrúgandi hita sem myndaðist í höllinni af nærveru á sjötta hundrað útskriftarnema auk mörg hundruð aðstandenda þeirra. Páll hafði sjö árum áður kennt mér heimspekileg forspjallsvísindi í lagadeildinni svo ég hafði töluverða reynslu af að hlýða á mál hans. Útskriftinni var svo fagnað með stífri drykkju að kvöldi dags.
Lifrarpylsan barst yfir hafið ásamt flatkökum, SS pylsum, hangikjöti, Egils appelsíni og fleiru á fimmtudaginn, einmitt á þriðja degi frá pöntun eins og lofað hafði verið á nammi.is. Ég get því ekki annað en lokið lofsorði á þjónustuna og þakkað feðgunum Sófusi og Gústav liðlegheitin. Ég lyppaðist nánast niður af nautn við að bíta í væna lifrarpylsusneið og ekki var verra að flatkökurnar reyndust lungamjúkar. Góð viðskiptahugmynd fyrir athafnamenn væri að opna hér verslun með íslensk matvæli. Hingað streyma Íslendingar í stórum stíl og hefur fjöldi þeirra (í Stafangri) rúmlega tvöfaldast frá upphafi kreppu. Fleiri eru væntanlegir.
Íbúðin í Våland, sem við skoðuðum um síðustu helgi, stendur okkur til boða frá 1. september ef við viljum, SMS-skeyti með þeim skilaboðum barst á fimmtudagskvöldið. Íbúðin er geysiflott og hverfið hreint frábært eins og sjá mátti á myndum hér á síðunni. Við erum þó komin með töluverða bakþanka. Íbúðin er í raun of lítil, 85 fermetrar er óttalegt frímerki miðað við alla okkar búslóð og bókasafn. Við báðum um að fá að skoða hana aftur og förum í það á mánudaginn. Líklegasta lendingin er að við afþökkum pent og höldum áfram að leita. Við höfum tvo og hálfan mánuð og framboðið er meira en nóg. Lágmarksstærð er eiginlega 100 fermetrar eða 80 fermetrar með bílskúr sem hægt væri að fylla af dóti sem við höfum ekki dagleg not fyrir.
Sumarstemmningin kviknar hröðum skrefum hér í borginni. Í vikunni var heljarmikill götumarkaður settur upp með sölubásum frá mörgum löndum. Þarna voru gríðarstórir ostar frá Sviss, um það bil tonn af bresku sælgæti og stórir básar frá Hollandi og Ítalíu með ýmsum girnilegum matvælum og fleiru. Skemmtiferðaskipin streyma inn í höfnina og á götunum er mælt á ótal þjóðtungum.
Ég fékk heldur betur eldskírnina á spítalanum í gær þegar eldri kona á meltingarsjúkdómadeildinni, þar sem ég var í opplæring þessa viku, fékk þennan líka niðurgang og hljóp eina sex metra inn á klósett með aurskriðuna aftan úr sér. Slóðin var auðrakin þar sem hún lá frá rúmi að klósettdyrum og ég var hreinlega nálægt yfirliði þegar sú gamla hafði lokið sér af og ég leit inn á klósettið. Ég held ég hafi farið með átta moppur og ellefu pör af latexhönskum við hreinsunarstarfið. Litt skit skader ikke, segja Norðmenn en þetta var reyndar töluvert magn. Skellti mér svo í mötuneytið og fékk mér þetta fína lasagna.