Líður að páskum

frettamynd arsinsSkemmtileg og óvænt sending beið mín í póstkassanum í gær. Þar lá Blaðamaðurinn, tímarit og málgagn Blaðamannafélags Íslands. Hjálmar Jónsson, sá ágæti maður, formaður BÍ, mundi eftir félagsmönnum erlendis og sendi mér eintak. Gaman var að sjá fréttamyndir ársins frá Íslandi og nýjustu úrskurði siðanefndar Blaðamannafélagsins. Tveir kaffibollar fóru í að liggja yfir blaðinu í dag. (MYND: Fréttaljósmynd ársins eftir Brynjar Gauta Sveinsson. Myndin er tekin undir Eyjafjöllum í gosinu fyrir réttu ári. Eru þetta fuglahræður eða líta þau bara svona út þarna undir hlíðunum?)

Eins og ég sagði frá í gær átti ég frí í dag vegna nýafstaðinnar helgarvaktar. Það var hálfgerð víma sem fylgdi því að sofa út eftir að hafa mætt til starfa vel fyrir klukkan sjö að morgni um helgina, eins og ég geri alla virka daga. Það skemmir þetta aðeins að svo er vinnudagur á morgun…þó bara til klukkan tólf á hádegi. Það er merkilegt fyrirbæri hér í Noregi að það telst orðið heilagt á hádegi miðvikudaginn fyrir páska, ekki á skírdag eins og á Íslandi.

Ríkið er opið til þrjú á morgun og svo lokað fram á þriðjudag. Hér er ekki opið í ríkinu á laugardögum um páska og hvítasunnuhelgi eins og Íslendingar þekkja. Við brenndum okkur á því um hvítasunnuna í fyrra eins og ég fjallaði um hér á síðunni þá. Við vorum þess vegna sniðug og fórum í dag og hreinsuðum út úr Vinmonopolet. Nú sitjum við hér á heilu tonni af rauðvíns- og hvítvínsbeljum, Baily’s, sérstöku rauðvíni með páskalambinu og ég veit ekki hvað. Sterka brennivínið kemur annars staðar frá en ég get ekki skrifað um það í opinni dagskrá.

Vinnudagurinn á morgun verður strembinn þótt hann verði stuttur. Ég á svokallað IA-viðtal við einn af mínum starfsmönnum. Norðmenn eru bilaðir þegar kemur að veikindum. Ríkisstofnanir halda úti kerfinu Inkluderende Arbeidsliv sem er hluti af hinu geðsjúka HMS-prógrammi (helse miljø sikkerhet). Þessi klikkun gengur út á að þegar starfsmaður hefur verið veikur í sex vikur (sem er ekki óalgengt hér) fer gríðarlegt ferli í gang. Þá þarf að kalla viðkomandi inn í fyrsta IA-viðtal og spyrja alls konar heimskulegra fyrirframákveðinna spurninga. Ein þeirra er: ‘Getum við gert eitthvað sem gerir það að verkum að þú komir aftur í vinnuna?’ og restin er ekki gáfulegri. Svo kemur tólf vikna viðtalið (sem ég er að fara í á morgun) og það er þúsund sinnum verra. Þá er fulltrúi frá HMS-deildinni viðstaddur (já, það er heil HMS-deild, ég held að þær séu sex eða átta dömurnar sem vinna þar), og saman tökum við rúmlega klukkutíma langt viðtal við sjúklinginn og fyllum út ákveðið eyðublað sem svo þarf að senda til Vinnumálastofnunar til þess að sjúkradagpeningar greiðist áfram.

Þetta er alveg galið kerfi sem ýtir eingöngu undir það að fólk sé ‘veikt’ þangað til það fer á eftirlaun en það er einmitt draumur norsks vinnumarkaðar, að gera ekki neitt! Engin furða að slegist er um Íslendinga í vinnu hér.

Ég óska Íslendingum til sjávar og sveita annars gleðilegra páska. Hér koma einhverjir pistlar um páskana en það verður sennilega ekki alveg daglegur viðburður. Maður þarf nú að hafa einhvern tíma til að fá sér í glös. Svo styttist í að við komum til Íslands í sumarfrí, það verður í lok júní. Eins og í desember byrjar heimsóknin á Argentínu steikhúsi!

Athugasemdir

athugasemdir