Leitið og þér munuð finna…gyllinæð

gyllinaedVikulega berst mér tölvupóstur með PDF-skjali sem inniheldur mjög ítarlega skýrslu um heimsóknir á þessa síðu. Þar má finna hafsjó upplýsinga, allt frá því hvers konar vafra fólk notar og hvað það eyðir að meðaltali löngum tíma á síðunni yfir í frá hvaða löndum heimsóknirnar koma, Sádi-Arabía kom til dæmis ný inn um daginn en af öðrum forvitnilegum lesendum má nefna eina heimsókn frá Zimbabwe sem ég skrifaði nú einhvern tímann pistil um hérna. Ætli fólk í þessum löndum skilji mikið af efni síðunnar? (MYND: Ég hefði getað valið mun athyglisverðara myndefni með þessum pistli en hef meðalhófsreglu stjórnsýslulaga í huga.)

Skýrslan gefur einnig upp hvaða leitarorð þeir, sem detta inn á síðuna gegnum leitarvélar, hafa stuðst við í leit sinni. Þannig vakti það töluverða athygli mína í skýrslu dagsins í dag að 36 manns höfðu slegið upp orðinu



gyllinæð á Google og komið þá leiðina inn á atlisteinn.is (spurning hvort þeir teljist þá koma bakdyramegin). Það sem meira er reyndist þetta vera fækkun úr rúmum 70 sem komið höfðu inn í síðustu viku vegna fróðleiksþorsta um gyllinæð.

Einhvern tímann í mars í fyrra skrifaði ég pistil um þetta sérstaka en að margra áliti hvimleiða fyrirbæri og Google þefar þetta uppi á örskotsstundu og sendir fólk, sem annaðhvort þjáist af gyllinæð eða hefur áhuga á að lesa sér til um hana, inn á síðuna hjá mér. Tæknin þekkir engin landamæri, það er alveg á beinu.

Að öðru. Maður kemst ekki hjá því að velta fyrir sér skeggi Þráins Bertelssonar, rithöfundar og alþingismanns. Er það ekta eða límir hann það á sig? Viðtöl og myndir af Þráni í sjónvarpsfréttum undanfarnar vikur sýna hann til skiptis fúlskeggjaðan eða sem barnsrass og gefa tilefni til hugleiðinga um notkun margra mánaða gamals myndefnis frá þingheimi. Minnir dálítið á atvik sem RÚV lenti í um áramót fyrir 40 árum og Ómar Ragnarsson sagði frá í spjalli við Elínu Hirst í Fréttaaukanum í gær. Menn hugðust þá stytta sér leið með því að nota ársgamlar myndir af áramótabrennu og vissu ekki fyrr en Sálarrannsóknarfélagið fékk gríðarlegan áhuga á myndskeiðinu þar sem löngu látinn maður hefði dúkkað upp í svaka stuði á brennunni.

Athugasemdir

athugasemdir