Ég var á námskeiði allan gærdaginn hjá fyrirtæki sem býr við þau kjör að leigja stórt sameiginlegt húsnæði með nokkrum öðrum fyrirtækjum og sameinast um ákveðna þætti, svo sem móttöku, símsvörun og mötuneyti. Þetta fyrirkomulag heitir næringspark en íslenska hugtakið „viðskiptagarður“ hefur svo sem aldrei náð að hefja sig til flugs þótt reynt hafi verið.
Þetta er ábyggilega sniðugt fyrirkomulag að mörgu leyti en þó mjög hætt við að ýmis rembingur og nábýliserjur komi upp eins og meðfylgjandi mynd ber með sér en þetta plagg hafði verið hengt upp á vegg við hlið kaffivélar sem stóð ein og sér á borði við beygju á óralöngum gangi. Ekki kemur þó fram á orðsendingunni hvaða fyrirtæki geri tilkall til kaffisins enda var ekkert kaffi í þar til gerðu rými vélarinnar og virtist ekki hafa verið um stund. Hins vegar höfðum við á námskeiðinu eigin kaffisjálfsala inni í kennslustofunni hjá okkur með hinu gjörsamlega ódrekkandi Evergood-kaffi sem flest fyrirtæki í Norður-Evrópu virðast telja sig knúin til að kvelja gesti sína og viðskiptavini með. Þykir mér einsýnt að Bjartur í Sumarhúsum hafi lumað á Evergood þegar hann mælti hin fleygu orð „Velkomin að Sumarhúsum. Nóg ætti nú að vera til andskotans kaffiþvagið og kannski sykurlús líka ef vel er leitað!“
Með kennslustofukaffinu var svo auðvitað engin mjólk og jók sá hörgull mjög á ódrekkanleika afurðarinnar þótt hörðustu menn svældu sullið í sig með harmkvælum og reyndu að láta ekki á neinu bera. Ég náði sex bollum yfir daginn og kalla mig góðan.
Önnur birtingarmynd hins þvingaða sambýlis viðskiptagarðsins var sameiginlegt mötuneyti. Var okkur námskeiðungum úthlutað matarmiðum í stíl styrjaldarára og við sendir í röðina. Þar tók við erfitt val. Á bakhlið matarmiðans voru úthlutunarreglur mötuneytisins skráðar en þar kom fram að miðinn gilti fyrir:
Einn skammt af heitum rétti dagsins EÐA
fjórar brauðsneiðar með áleggi (þó ekki umfram eina einingu áleggs á hverja brauðsneið) EÐA
skál af súpu dagsins ásamt einni brauðsneið.
Þessu mátti svo fylgja eitt glas af vatni, útþynntum eplasafa eða appelsínusafa en ekkert var minnst á kaffi sem þó stóð uppáhellt á könnu við hliðina. Heitur réttur dagsins var reyndar ágætur þrátt fyrir regluverkið (eða kannski vegna þess) og þegar ég bað auðmjúklega um leyfi eftir matinn bað starfsfólkið mig endilega að fá mér kaffibolla. Sú aðgerð var þó útsmogin og -hugsuð hjá mér því um leið og ég hellti mér kaffi í bolla notaði ég tækifærið og stal tveimur einnota dollum af kaffirjóma sem ég smyglaði með mér í kennslustofuna og notaði til að bragðbæta Evergood-hlandið það sem eftir lifði dags.
Maður hefur sig í gegnum þetta.