Langt fram á horfinni öld

EndurfundirHún var kannski stutt, sólarhringsheimsóknin mín til Íslands um helgina, en engu að síður fullkomlega þess virði að leggja á sig miðað við tilefnið. Eins og varla hefur farið fram hjá þeim sem tengjast mér á Facebook hittist árgangurinn minn úr Garðaskóla á laugardaginn og minntist þess að í vor eru 25 ár liðin síðan við lukum 9. bekk við skólann vorið 1989. Þó er kannski ofsögum sagt að tala um að við höfum lokið honum, þetta var verkfallsvor og kennaraverkfall stóð frá marslokum og út skólaárið. Engu að síður ungaði skólakerfið okkur út úr skólanum enda annað ekki hægt í samræmi við fræðslulög landsins sem kveðið hafa á um skólaskyldu allar götur frá 1907. (Hópurinn sem mætti á laugardaginn./Kokkur frá Hamborgarabúllunni tók myndina)

Nú kynnu glöggir lesendur að hnjóta um að þessi tímasetning grunnskólaloka passar illa við aldur minn en svo var að tvö ungmenni fædd 1974 voru þess heiðurs aðnjótandi að fá að fylgja 1973-árganginum gegnum skólakerfið, þetta vorum við Hrafnhildur Sigurðardóttir sem að auki var nágranni minn á Flötunum. (MYND: Bergur Þór Þórðarson gerði sér lítið fyrir og fékk æskuheimili sitt í Ásbúðinni „lánað“ fyrir upphitun Gamalla hunda. Myndin var tekin á self-timer á símanum hans Begga sem skorðaður var í pylsubrauði á stofuborðinu.)EndurfundirII

Það er erfitt að gera almennilega grein fyrir þeim anda sem býr að baki svona löguðu í rituðu máli en auðvitað eiga flestir sem komnir eru af léttasta skeiði sér sín skólasystkin og minningar, bara mismunandi hvað hver gerir svo í málinu. Hópurinn sem lauk Garðaskóla þetta vor fyrir 25 árum taldi sex bekki með 149 nemendum og hefur drjúgur hluti hans hist samviskusamlega á fimm ára fresti frá 1994. Skipuleggjandi, upphafsmanneskja og allt í öllu fyrstu tvö skiptin var Kristrún Klara Andrésdóttir skólasystir okkar og verður henni aldrei fullþakkaður dugnaðurinn að hafa drifið í gang ferli sem nú er orðið svo fast í sessi að fylgir okkur til efsta dags. Lítið var um rafræna samskiptamiðla fyrir 20 árum, nánast bara IRC sem var gjörsamlega ómögulegt til þess brúks að finna nafngreinda einstaklinga og barst einfaldlega bréf frá Kristrúnu með póstinum, nokkuð sem þætti algjörlega fáránlegt á þeim tímum sem við lifum nú. Þetta fyrsta mót fór fram í skíðaskálanum í Hveradölum og ég skal nú alveg játa að ég man nú ekkert sérstaklega mikið svona sirka frá Litlu kaffistofunni og þangað til daginn eftir…

Fimm árum seinna hittist fólk á Hótel Borg, aftur að undirlagi og skipulagningu Kristrúnar, árið 2004 á Grand hóteli á sérstaklega vel heppnuðu móti sem Davíð Torfi Ólafsson og Ólafur Þór Kristjánsson héldu utan um, 2009 gerðum við mjög vel heppnaða tilraun með að koma saman í heimahúsi og buðum við Rósa hópnum heim í Mosfellsbæinn þar sem Gunnlaugur Sigurðsson, skólastjóri á okkar tíð, tók að sér hlutverk leynigests og flutti ógleymanlega ræðu.EndurfundirIV

Ljóst var frá upphafi að þær væntingar sem endurfundanefnd 2014, Ásta Sveinsdóttir, Guðbrandur Benediktsson, Ingibjörg Sigfúsdóttir og Kristinn Ingi Lárusson, stóð frammi fyrir voru ekki litlar. Aldarfjórðungur kominn frá því að við kvöddum skólastigið og síða hópsins á Facebook að auki kærkomið verkfæri til að byggja upp mun markvissari spennu en stóð til boða á fyrri áratugum. Án óþarfa málalenginga stóðu fjórmenningarnir fullkomlega undir þeim væntingum og gott ef ekki rétt rúmlega. (MYND: Bæjarstjóri ávarpar hópinn.)

Skipulögð dagskrá hófst í Hönnunarsafni Íslands klukkan 18:00 á laugardaginn þar sem Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, fyrrverandi kennari við skólann, handknattleiksmaður og -þjálfari, tók á móti fólki sem velflest var þá að koma úr upphitunarteitum annaðhvort með gamla bekknum sínum, vinahópnum eða hvoru tveggja. Bauð Gunnar upp á veitingar í sal safnsins en til forna hýsti húsnæðið verslunina Garðakaup ásamt Sælgætis- og vídeóhöll Gústavs Sófussonar og þeirra feðga en við hvort tveggja áttu garðskælingar mikil viðskiptatengsl. (MYND: Endurfundanefnd 2014, f.v. Ásta Sveinsdóttir, Ingibjörg Sigfúsdóttir, Guðbrandur Benediktsson og Kristinn Ingi Lárusson./Hilmar Brjánn Sigurðsson tók myndina)EndurfundirV

Frá safninu gekk hópurinn svo sem leið lá niður í Garðaskóla og voru flestir að koma þar inn í fyrsta skipti síðan vorið 1989 og var upplifunin því býsna sterk, að minnsta kosti í mínu tilfelli. Nokkrar breytingar hafa eðlilega verið gerðar á húsnæðinu og vel spilað úr en sérstaklega var gaman að sjá hve margt var einnig óbreytt, brúnu flísarnar á fyrstu hæðinni, marmaragólfið í gryfjunni svokölluðu (ef þetta er þá marmari) og aðstaða plötusnúðs í trébúri þar við hliðina en hið síðasttalda ætti fullt erindi á heimsminjaskrá UNESCO.

Þarna steig leynigestur mótsins fram en þar var kominn einn af ástsælustu kennurunum á okkar tíma, Guðbrandur Stígur Ágústsson íslenskukennari, mannkostamaður, hæfilega spaugsamur og átti virðingu nemenda sinna óskipta. Akademískar víðlendur Stígs þekktu fá takmörk og fólst hluti kennslunnar jafnan í því að stilla upp 1X2-seðli helgarinnar með aðstoð nemenda þótt ekki þekki ég til þess hvort stórvinningar hafi hlotist af. Stígur steig á svið, rifjaði upp feril sinn við skólann og lauk máli sínu við mikinn fögnuð með því að skila Unni Örnu Jónsdóttur til baka vinnubók nokkurri sem hún hafði lagt fram í kennslu hjá honum.

Gjafanefnd hópsins færði Brynhildi Sigurðardóttur skólastjóra nú að gjöf safn hljóðfæra, þar á meðal íðilfagra írska hörpu sem tileinkuð var Sveini Geirssyni, formanni nefndarinnar, en hann er búsettur á Írlandi og átti ekki heimangengt á þessa endurfundi. Andi þinn lifir í hörpu þessari, Svenni! (MYND: Ragnheiður Gunnarsdóttir og Unnur Arna Jónsdóttir steyta hornin. Flottasta myndin af þeim sem ég smellti af um helgina.)EndurfundirIII

Ég vildi nú helst ekkert fara út úr skólanum aftur og gekk dolfallinn um gamlar kennslustofur í vímu minninganna en lokaliður dagskrárinnar varð ekki umflúinn, húllumhæ í Stjörnuheimilinu við hliðina á. Steiktu kokkar þar Búlluborgara sem enginn væri morgundagurinn og færi gafst á að tylla sér og ræða við gamla samnemendur sem margir hverjir urðu svo reyndar samnemendur mínir áfram í MR, FG og að lokum HÍ. Líklega hafa verið þarna um 70 manns og auðvitað eru samkomur á borð við þessa alltaf því marki brenndar að útilokað er að ræða af einhverju viti við nema brot af hópnum. Á þessu stigi málsins braust blessuð sólin fram eftir rysjóttan dag og stemmningin á svæðinu var engu lík. Lokanúmerið var hrikaleg upprisa skólahljómsveitarinnar Anus og gerði sveitin mér þann heiður að biðja mig að kynna þann dagskrárlið. Sýndi hljómsveitin það og sannaði að hún hafði öllu gleymt en náð að rifja það upp aftur og vel það.

Ég get ekki sagt annað en að 25 ára afmælið hafi tekist eins vel og nokkur gæti vonast eftir. Minningarnar eru einstakar, ég átti því láni að fagna að eiga mjög góð ár í barnaskóla og raunar allt upp í stúdentspróf auk þess að vera með frábæru fólki í skóla, stór vinahópur þessa tíma hittist árlega að hausti eins og ég hef fjallað um hér. Þetta var einstaklega góður dagur og ég er í hálfgerðu tilfinningalosti eftir helgina. Skelfilegast þykir mér að nú eru fimm ár í næsta mót.

Þakka ykkur öllum kærlega fyrir upplifun sem á sér enga hliðstæðu.

 

 

 

Athugasemdir

athugasemdir