Kyrkj’ann!

spiritualÚrslit dagsins í Kastljósinu liggja nokkuð ljós fyrir: Illugi Jökulsson 1 – séra Þórhallur Heimisson 0. Það hefur sennilega aldrei gerst síðan mælingar hófust að Helgi Seljan nánast þegi heilt viðtal en hann sagði varla múkk í þætti kvöldsins. Ég var býsna ánægður með málflutning Illuga sem hvað eftir annað rak blauta tusku framan í séra Þórhall. Einkum var ég ánægður með þá einföldu rökfærslu Illuga að það væri ekki réttlátt, hvorki gagnvart trúleysingjum né þegnum annarra trúflokka en kirkjunnar, að eitt trúfélag væri samofið íslenska ríkinu. Þetta er alveg rétt ef maður nennir að íhuga það.

Ég skráði mig úr þjóðkirkjunni árið 1991 og var 11 ár í Ásatrúarfélaginu sem var mjög skemmtilegt. Þarna kom fólk saman, drakk brennivín og ræddi fornar sögur. Í þjóðkirkjunni kemur fólk bara saman. Það er ekki einu sinni bar í henni. Núna er ég skráður í félag zen-búddista á Íslandi en mér finnst búddismi satt að segja einu trúarbrögðin sem nálgast lífið af einhverri skynsemi – þar eru menn ekkert að stressa sig á hlutunum. Búdda var kannski feitur en hann vissi sínu viti.

Þráinn Steinsson, minn gamli drykkjubróðir og samstarfsfélagi af Bylgjunni, er hins vegar ásatrúar, eða eins og hann orðaði það: ‘Já, ég trúi alveg á Ása, hann býr í Neðra-Breiðholtinu.’

Kirkjan er ekki í sérstaklega góðum málum eins og sakir standa, hvorki sú lúterska né kaþólska. Búið að liggja á sóknarbörnunum hægri og vinstri í báðum deildum. Sennilega er málum svo komið nú að staðan er orðin lík því er prestar áttu í kjaradeilu á níunda áratugnum og þulur Ríkisútvarpsins lauk frétt um málið á þessum orðum: ‘Og nú er svo komið að prestar geta ekkert annað en beðið.’

Athugasemdir

athugasemdir