Kyndilmessa – hver hátíðisdagurinn rekur annan!

kyndill‘Það var á kyndilmessumorgun…’ voru upphafsorð einhverrar stafsetningaræfingar úr brunni hinnar bláu martraðar Árna Þórðarsonar og Gunnars Guðmundssonar sem kennd var í öllum grunnskólum þegar ég skreytti það skólastig, kennarastéttinni til ama og skelfingar. Gildran er fólgin í stórum eða litlum upphafsstaf á heiti kirkjuhátíðar og n-fjölda í orðinu morgunn í aukafalli. Engin vísindi svo sem. En í dag, 2. febrúar, er sem sagt kyndilmessa, kaþólskur tyllidagur með óljósar rætur hvers tilurð engar heimildir hafa náð að skýra til fulls fram að þessu. Ekki einu sinni Saga daganna eftir Árna Björnsson þjóðháttafræðing. Norðmenn kalla daginn Kyndelsmesse en að fornu nefndist hann einnig Kindermesse og Kjærmesse (og allt með stórum staf að amerískum sið). Hérna í Suður-Noregi hefur það hins vegar tíðkast að kalla 2. febrúar fyrsta vordaginn, første vårdag, sem er býsna merkilegt því fæstar þjóðir held ég hafi komið sér upp formlegum upphafsdegi vors.
uniliver
Nýjasta von mín í baráttunni við að komast upp í 105 kíló fyrir verkalýðsdag er amínósýrusprengjan Uni-Liver frá hinum gamalgróna líkamsræktarfrömuði Universal. Sá framleiðandi hefur ýmsa fjöruna sopið og muna margir, sem komnir eru af allra léttasta skeiði, vafalítið eftir Universal-lyftingatækjum í íþróttahúsum gagnfræðaskóla sinna, brúnbólstruðum tækjum með miklum kolsvörtum lóðastöflum og vel af stirðleikanum við allar stillingar og hreyfingar. Alveg nothæf engu að síður. Uni-Liver eru töflur framleiddar úr ómengaðri lifur argentínskra nautgripa sem aldir hafa verið á grasinu einu saman án allrar hormóna- og aukefnagjafar. Lifrin er snöggfryst í -18 gráður og verkuð í því ástandi án íblöndunarefna annarra en þeirra bindiefna sem töflugerðin krefst. Þetta er stútfullt af B-vítamínum og inniheldur auk þess nánast allar amínósýrurnar (20 af 23 náttúrulegum, ég tel ekki með þær 40 sem smíðaðar hafa verið á stofum) og bragðið ekki eins djöfullegt og búast mætti við af lifur í pilluformi. Sennilega eykur þetta hvort tveggja úthald til lóðalyftinga og drykkju.

Að lokum er hér sérstök tilkynning til Baldurs Beck, fyrrum íþróttafréttamanns hjá 365 og mikils körfuboltasérfræðings, en við Baldur deilum sjúklegri fíkn í og áhuga á sænska sælgætinu Läkerol sem reyndar er ekkert sænskt lengur heldur framleitt af einhverju alþjóðlegu risafyrirtæki um allan heim. Ferill Läkerol hófst hins vegar í Gävle í Svíþjóð árið 1909 þegar Alfred nokkur Ahlgren tók að flytja inn hrikalegar lakkrístöflur frá Leipzig í Þýskalandi og kokka upp úr þeim sína eigin framleiðslu.
lakerol
Baldur, nú held ég að leit okkar sé endanlega lokið. Þú slærð aldrei út þennan djöful, bláberja-, rifsberja- og granateplakokteil!!! Við erum að tala um vöru sem tekur jafnvel Läkerol Split Cloudberry og Läkerol Dark Smoked Liquorice ósmurt í gamla bakaríið og það án þess að blása úr nös. Ég fann pokann (tóman því miður) á kaffistofu á spítalanum en útlitið á þessum rudda segir mér töluvert meira en bragðið myndi gera. Nú er bara að finna þetta og bragða það! ****** with a knife, gamli skratti! (Þetta síðasta er einkaglettni milli mín, Baldurs og gleðisveitarinnar Cannibal Corpse.)

Läkerol…makes people talk.

Athugasemdir

athugasemdir