atlisteinn.is birtir á næstu vikum og mánuðum einstaka frásögn af og lýsingu á ræktun matjurta í þar til gerðum reit við Skarhólabraut í Mosfellsbæ. Áður hefur verið greint frá því hér í tuðdálki síðunnar að okkur var úthlutað heilum 50 fermetra matjurtagarði af hálfu bæjaryfirvalda gegn aðeins 1.500 króna greiðslu fyrir allt sumarið (sem skýrist að hluta af því að um fyrrverandi kirkjugarð er að ræða en lesendur eru beðnir um að fara með þá staðreynd sem mannsmorð). (MYND: Líffræði kartöflu. Virkar einfalt en leynir á sér.)
Í sumar mun atlisteinn.is annað slagið bregða sér í gervi garðyrkjutímarits og greina frá því hispurslaust, í máli og myndum, hvernig ræktun kartaflna, gulróta, radís(n)a og annars girnilegs grænmetis gengur fyrir sig. Ekkert verður skilið undan og allt látið uppi um ræktun erfðabreyttra matvæla. Má hér nefna fyrstu kartöfluna sem endist 50 manns heilan vetur, gulrótina sem át Mosó og fleira forvitnilegt.
Fyrsta skrefið er nú að baki. Verslun Garðheima var heimsótt í gær og þar fjárfest í svonefndu útsæði, einum poka af Gullauga og einum poka af Premier. Þetta liggur nú í makindum á pappaspjöldum úti í bílskúr og bíður síns vitjunartíma, hinnar svonefndu spírunar sem er æðsti þátturinn í frjósemisferli kartöflu (sá sem þetta skrifar gæti nú hugsað sér að verja slíkum augnablikum annars staðar en liggjandi á útbreiddum pappakassa í bílskúr en maður hefur svo sem ekki alltaf val).
Eftir nokkra daga munu útsendarar atlisteinn.is setja útsæðið niður í garði sínum við Skarhólabraut og bíða þess að voldug grös leiki við himin sjálfan. Sjálfbærni er lykilorðið í efnahagshremmingunum. Lesendum er boðið að fylgjast með ferlinu í sumar, frá sæði til suðu eins og við kjósum að kalla það, í greinaflokknum Kveðið úr kálgarðinum. Aðeins hér á atlisteinn.is, vefsetri djöfulsins.