Krabbinn með gylltu klærnar

krabbiRósa fékk gefins norskan sjókrabba, heilan djöful, í vinnunni í dag. Dýrið var afhent látið og soðið. Með Rósu vinna systurnar Laila og Marit sem hafa unnið á spítalanum í mannsaldur. Þær gera ekki annað en veiða fisk og annað sjávarfang í frítíma sínum auk þess að þamba brennivín. Krabbinn kom frá þeim. (MYND: Þetta er kvikindið, í pörtum.)

Ef einhverjum finnst erfitt að verka humar þá er það hreinn brandari við hliðina á krabbanum. Við hömuðumst með klaufhamri á djöflinum til að ná úr honum kjötinu og svo var það náttúrulega ekki upp í nös á ketti, einn og einn smábiti eftir mikla vinnu og beinflísar út um allt eldhús. Bragðið var frekar dauft, vægur sjávarkeimur sem var engan veginn vinnunnar virði. The moral of this story: Fáið ykkur frekar humar en norskan sjókrabba. Norðmenn eiga enn fremur fullt af spennandi sjávarfangi sem slær krabbann margfalt út.sjomenn

En talandi um sjó og sjávarfang. Egill Helgason birtir skemmtilegan pistil um nýjasta demantinn í flóru óskalaga sjómanna. Þetta virðist vera svakalegt verk, 60 íslensk sjómannalög. Við erum miklir sjómannalagafíklar, erum einmitt núna að hlusta á Stolt siglir fleyið mitt. Þessi diskur verður keyptur eins og skot í Íslandsheimsókninni í næstu viku. Þetta eru fyrstu góðu fréttir sem ég fæ frá Íslandi síðan síðasta eldgosi lauk fyrir skömmu. Restin af fréttunum er ekki beint uppörvandi, allir eru á rítalíni, leikskólakennarar á leið í verkfall, veðrið ömurlegt og auðvitað gat Alþingi ekki afgreitt kvótafrumvarpið fyrir sumarkokkteilafríið sitt. Ekki það að þau geti neitt í þeirri góðu stofnun.

Samt er ég að koma til Íslands í frí. Römm er sú taug er Bæjarins bestu rekka dregur föðurtúna til!

Athugasemdir

athugasemdir