Fyrstu kosningarnar í Noregi voru upplifun eins og ég bjóst fastlega við. Reyndar klikkaði farið með Høyre þar sem aksturskerfið hjá þeim hrundi strax undan gríðarlegum ágangi kjósenda en kosningaþátttaka hér í Rogaland er 80,7 prósent samkvæmt mjög sniðugri kosningavöku á vef Stavanger Aftenblad (kosið var í dag og í gær og lokuðu kjörstaðir núna klukkan 21 að norskum tíma). Ég er því laus við hugsanlegt samviskubit yfir að hafa látið Høyre aka mér á kjörstað til að kjósa Arbeiderpartiet sem ég gerði enda leiðir flokkurinn kosningarnar alls staðar á landinu með 33,2 prósent atkvæða þegar þetta er skrifað. Høyre fylgir á eftir með 25,3. Það er töluverður munur.
En það var ekki ætlunin að vera hér með stjórnmálaskýringar í anda Gunnars Helga Kristinssonar prófessors. Hann sér um þær. Ég kýs heldur að lýsa upplifun minni af mínum fyrstu kosningum innan erlends ríkis.
Það fyrsta sem stakk mig hefur lítið með sveitarstjórnarmál að gera en tengist frekar grunsamlegum fjölda einstaklinga sem líktust Andy Warhol í kjörstjórn Ullandhaug og Våland. Ég birti tvær myndir máli mínu til stuðnings og hallast helst að því að þetta hafi verið einhver þögull brandari hjá kjörstjórninni sem virtist alveg fjallhress svona alla vega miðað við mína reynslu af hinni dæmigerðu kjörstjórn. (MYNDIR: Sumir segja að Elvis sé á lífi og vinni í Bónus en ég get neglt það niður með myndum að Andy Warhol er á lífi og situr í kjörstjórn í Noregi – meira að segja tvö eintök af honum!)
Það sem vantaði alveg í þessar kosningar var X-ið, þungamiðja allra kosninga sem ég hef upplifað. Þarna er að sjálfsögðu ekki átt við útvarpsstöð með þessu heiti heldur merkingu á kjörseðil. Hér er ekkert svoleiðis. Hver flokkur er bara með sinn kjörseðil svo kosningin snýst um að velja réttan kjörseðil, einn fyrir sveitarstjórn og einn fyrir fylkisþing, og skila honum svo bara algjörlega ómerktum í stimplun til kjörstjórnar og þaðan í kjörkassa. Þó er hægt að gera merkingar á seðlana til að strika út eða breyta röð frambjóðenda en ég þekki þetta fólk ekki neitt svo ég var ekkert að því. Hinn klassíski flokkur ‘Auðir og ógildir’ er þar með sennilega ekki til í norskum atkvæðatalningum þar sem flestir seðlarnir eru að líkindum auðir.
Mér fannst þessi staðreynd nú skemma kosningarnar pínulítið en jafnaði mig þó. Eins og fyrr segir lék Andy Warhol-kjörstjórnin hreinlega á als oddi, bauð okkur hjartanlega velkomin til Noregs og óskaði til hamingju með fyrstu kosningarnar okkar. Þau reiddust ekki einu sinni þegar Rósa gleymdi að skila sínum seðlum í kjörkassann vegna anna við myndatökur af vettvangi og fór með þá út í veskinu sínu. Við bjuggumst við stórmáli og ákærum fyrir kosningasvik og glæpi gegn mannkyninu en Andy Warhol nr. 1 brosti bara sínu blíðasta og leyfði okkur að skila seðlunum á sinn stað. (MYND: Seðlarnir stimplaðir. Takið eftir þeim frelsis- og gleðianda sem einkennir kjörstjórnina.)
Ég get ekki látið hjá líða að minnast á það að áfengiseinkasala norska ríkisins, Vinmonopolet, var lokuð í dag en óheimilt er að selja áfengi á kosningadag í Noregi (alla vega í ríkinu, barir mega sennilega halda uppi óskertri starfsemi). Þetta er ábyggilega jafnbilað í augum Íslendinga og sjónvarpslausi fimmtudagurinn á Íslandi fram til október 1986 var í augum útlendinga. Ég næ hreinlega ekki upp í þetta. Ég var að hugsa um að kippa myndavélinni með í vinnuna í dag og taka mynd af einhverju lokuðu ríki á leið heim en letin sigraði. (MYND: Kjörseðill lýkur ferðalagi sínu í kjörkassa, einn kassi er fyrir hvort, sveitarstjórn og fylkisþing.)
Núna er talningu atkvæða að ljúka og er Verkamannaflokkurinn með 33,3 prósent á landsvísu. NRK kallar Høyre þó sigurvegara kosninganna en flokkurinn bætir sig um 8,1 prósentustig frá kosningunum 2007. Framsóknarflokkurinn, FRP, virðist í svipuðum málum og félagarnir á Íslandi og fær sína verstu kosningu í 16 ár, niður um 6,3 prósentustig frá síðustu kosningum. Nú eru slæmir dagar fyrir framsóknarmenn á Norðurlöndum og undrar kannski engan þegar mesta athyglin kringum flokkinn á Íslandi snýst um megrunarumræðu formannsins á Facebook-síðu sinni og ritdeilu hans við lækna og næringarfræðinga í fjölmiðlum vegna umdeildra fullyrðinga hans á sviði matvælafræði.