Væri ég opinber stofnun teldist ég sennilega hafa brotið ýmsar greinar stjórnsýslulaga með því að hafa sögu mína af Kidda Rót hangandi hér uppi sem klósett vikunnar í rúma sjö mánuði. Kiddi er nú hættur í Hveragerði og hefur opnað útibú hér í Mosfellsbænum. Sennilega er hann þá að einhverju eða öllu leyti kominn með nýtt starfsfólk og vonandi annað en allan hópinn sem starði á mig og frúna 17. ágúst síðastliðinn án þess að hreyfa einn útlim.
Fyrirgefningin er dyggð og ég óska Kidda velfarnaðar í Mosfellsbænum, ætla að borða hjá honum áður en við flytjum til Noregs. Annars er ánægjuefni að veitingahúsum fjölgi hér í bænum og hin annáluðu hjól atvinnulífsins verði að nagladekkjum djöfulsins og rífi upp stemmninguna. Ég óska Rótinni (beygist þetta þannig eða er maðurinn fyrrverandi rótari hjá einhverri hljómsveit, er Rót jafnvel ættarnafn? Sé það viðurnefni ber ekki að rita það með hástaf nema það sé dregið af sérnafni. Þetta er fullt efni í doktorsritgerð í orðsifjafræði) velfarnaðar í rekstri sínum og betra þjónustufólks en fyrir austan fjall.
Það sýnir vissa viðleitni (og gjaldþrotaótta) þjónustufyrirtækja að ég hef ekki haft ástæðu til að rita hér eitt orð síðan í ágúst 2009. Megi svo haldast á meðan moldir og menn lifa. Amen.