Rótin hlýtur uppreist æru

Væri ég opinber stofnun teldist ég sennilega hafa brotið ýmsar greinar stjórnsýslulaga með því að hafa sögu mína af Kidda Rót hangandi hér uppi sem klósett vikunnar í rúma sjö mánuði. Kiddi er nú hættur í Hveragerði og hefur opnað útibú hér í Mosfellsbænum. Sennilega er hann þá að einhverju eða öllu leyti kominn með nýtt starfsfólk og vonandi annað en allan hópinn sem starði á mig og frúna 17. ágúst síðastliðinn án þess að hreyfa einn útlim.

Fyrirgefningin er dyggð og ég óska Kidda velfarnaðar í Mosfellsbænum, ætla að borða hjá honum áður en við flytjum til Noregs. Annars er ánægjuefni að veitingahúsum fjölgi hér í bænum og hin annáluðu hjól atvinnulífsins verði að nagladekkjum djöfulsins og rífi upp stemmninguna. Ég óska Rótinni (beygist þetta þannig eða er maðurinn fyrrverandi rótari hjá einhverri hljómsveit, er Rót jafnvel ættarnafn? Sé það viðurnefni ber ekki að rita það með hástaf nema það sé dregið af sérnafni. Þetta er fullt efni í doktorsritgerð í orðsifjafræði) velfarnaðar í rekstri sínum og betra þjónustufólks en fyrir austan fjall.

Það sýnir vissa viðleitni (og gjaldþrotaótta) þjónustufyrirtækja að ég hef ekki haft ástæðu til að rita hér eitt orð síðan í ágúst 2009. Megi svo haldast á meðan moldir og menn lifa. Amen.

Sorgleg þjónusta hjá Kidda Rót í Hveragerði

p8170120Langt er um liðið síðan klósett vikunnar hefur verið valið en síðdegis mánudaginn 17. ágúst spratt upp svo áberandi klósett að fádæmi þykja. Við lok hringferðar um landið ákváðum við að stoppa eftir 400 kílómetra akstur og þiggja kaffibolla hjá Kidda Rót í Hveragerði. Skemmst er frá því að segja að sú heimsókn varð fremur endaslepp. (MYND: Kaffihús Kidda. Honum er ráðlagt að funda með starfsfólki sínu um hvað þjónustulund táknar.)

Ferðalúin röltum við inn á staðinn og tókum okkur stöðu koffeinþyrst við barborðið. Þar stóð drengur nokkur og útbjó kaffi handa viðskiptavinum og voru auk hans tvær þjónustustúlkur á staðnum. Ekkert þeirra bauð okkur góðan dag og ekkert þeirra gerði sig líklegt til að veita okkur hina minnstu þjónustu. Þvert á móti létu stúlkurnar sig hverfa inn í eldhúsið þar sem þær stóðu og gerðu nákvæmlega ekki neitt en pilturinn lagði sig fram um að taka ekki eftir okkur. Öll horfðu þau þó á okkur, hvert á sínum tímapunkti.

Eftir að hafa staðið tæpar sjö mínútur í þögn við barborðið ákváðum við að láta ekki bjóða okkur upp á slíkan fáránleika og röltum yfir til Almars bakara sem er við hliðina á. Ekki stóð á þjónustu þar, brosandi stúlka tók okkur með virktum og bauð okkur þegar í stað upp á ljúffengt og rjúkandi kaffi sem við drukkum á bekk fyrir utan í hæglætisveðri. Á meðan laumaðist drengurinn af bar Kidda fram hjá okkur og gerði sitt besta til að líta ekki í áttina til okkar enda hafa hann og samstarfsfólk hans væntanlega vitað upp á sig sökina.

Það er ömurlegt að verða vitni að svo lélegri þjónustu og síðuritari vonar að Kiddi lesi starfsfólki sínu pistilinn. Nenni það ekki að vinna er kappnóg af fólki sem vantar vinnu, svo mikið er víst. Þá er rétt að benda á að þetta er ekki í fyrsta sinn sem kaffihúsið hlýtur gagnrýni á lýðnetinu:

Reikfýla á Kaffi Kidda Rót.

 

Krónan er klósett ÁRSINS 2009

kronanÞetta er einstakt afrek. Krónan hefur hér með orðið sér úti um titilinn klósett ársins 2009 á atlisteinn.is vegna síendurtekinna rangra hillumerkinga (sem, merkilegt nokk, gefa ávallt upp lægra verð en rukkað er við kassa, aldrei hærra þrátt fyrir að hér sé um hrein mistök að ræða að sögn verslunarstjóra). Hér að neðan getur að líta bréf sem ég sendi Neytendastofu í kvöld. Nú skora ég á alla sem þetta lesa og orðið hafa fyrir barðinu á hreinum þjófnaði Krónuverslana að senda Neytendastofu tölvupóst á netfangið postur@neytendastofa.is með yfirskriftinni ‘Krónan fellur’ og lýsa yfir stuðningi við málflutning atlisteinn.is auk þess að gera skýra og réttmæta kröfu um að Neytendastofa rannsaki þessa háttsemi Krónuverslana ítarlega og af festu.

Bréf mitt til Neytendastofu:

Nú get ég ekki lengur orða bundist yfir viðskiptaháttum verslana Krónunnar. Í kvöld varð ég fyrir því í áttunda sinn á þessu ári í Krónunni í Mosfellsbæ að verð á kassa var hærra en hillumerking vöru sagði til um. Í þessu tilfelli voru það tveir lítrar af Kristal með sítrónubragði sem merktir voru á 149 krónur í hillu en reyndust svo kosta 160 krónur við kassann. Verslunarstjóri endurgreiddi mér ellefu krónurnar þegar ég kvartaði og baðst innilega afsökunar.

Ég hef áður leitað skýringa hjá verslunarstjórum á þessum sérstaka mun og ávallt fengið sömu skýringar: Mistök við verðmerkingu. Mér finnst það ansi merkileg mistök sem ganga einatt í þá átt að neytandinn greiðir að lokum meira fyrir vöruna. Hvernig stendur á því að verðið er aldrei ‘óvart’ lægra á kassa en hillumerking segir til um?

Að mínu viti er þetta bága viðskiptasiðferði orðið svo áberandi hjá Krónunni að ég tel að kalli á rannsókn Neytendastofu. Það dylst engum sem er eldri en níu ára að forsvarsmenn Krónunnar treysta einfaldlega á að viðskiptavinurinn muni ekki hvað stóð á hillunni þegar komið er að kassanum og í flestum tilfellum er það einfaldlega þannig. Fróðlegt væri að vita hvað Krónan græðir á ársgrundvelli á þessum þjófnaði sínum, því þetta er ekkert annað.

Ég er í hópi þeirra neytenda sem skýst stundum inn og vantar þá eitthvað eitt eða tvennt. Þar af leiðandi man ég iðulega verðið þegar kemur að kassanum. Ég versla iðulega við Bónus en fer í Krónuna, sem er opin lengur, þegar þannig stendur á. Ferðir mínar í Krónuna eru því tiltölulega fáar, um þrjár í mánuði. Það hlýtur því að segja töluvert að ég hafi það sem af er árinu lent átta sinnum í því að kassaverð er hærra en hilluverð.

Atli Steinn Guðmundsson
neytandi

Hvar er klósettið? (donde este el Banjo?)

Mér finnst það orðið frekar ósanngjarnt gagnvart Vodafone að láta þá tróna hér á toppi klósetts vikunnar hverja vikuna á fætur annarri. Ég set því þessa klausu efst þar til næsta klósett finnst. Vodafone bæði leiðrétti misgjörðir sínar og eigandinn, Teymi, varð gjaldþrota. Fáar klósett-tilnefningar upp á síðkastið skrifast hins vegar ekki á pennaleti heldur er skýringin einfaldlega sú að söluaðilar varnings og þjónustu hafa ekki verið með nein sérstök leiðindi við mig eða mína nýlega. Reyndar gengur það svo rækilega í hina áttina að ég nýt einstaklega góðrar þjónustu hvar sem ég kem. Þetta er auðvitað jákvætt og sýnir svo ekki verður um villst hve víðlesið vefsetur atlisteinn.is er orðið. Nú í síðustu netumferðarskýrslu frá Miðneti, mínum frábæra þjónustuaðila, kom meira segja í ljós að síðan á sér einn lesanda í Serbíu og Ísrael kom nýtt inn fyrir nokkrum vikum með einn gest (væntanlega Benjamin Netanyahu sem þekktur er fyrir þægilegheit í garð nágranna sinna).

Vodafone á þessa viku

vodafoneKlósett vikunnar að þessu sinni er fjarskiptafyrirtækið Vodafone sem kann heldur betur að veiða eldri borgara í snörur sínar. Ekki það að sá sem hér ritar sé eldri borgari (eldri en þrítugur samt!) en fjölskyldan lenti í þeim rauðu. Í ljós kom að þegar starfsfólk fyrirtækis aðila nokkurs í fjölskyldunni hafði nýtt sér tilboð Vodafone um net,- síma- og sjónvarpstengingu hafði gleymst að upplýsa um að rukkanir fyrir leigðar kvikmyndir kæmu eingöngu í heimabanka og hvergi annars staðar.

Þar sem fólkið sem um ræðir er á sjötugsaldri og illa við róttækar nýjungar á borð við GSM-síma, tölvur og banka í tölvum átti það ekki annars von en að leigðar myndir yrðu gjaldfærðar á símreikning þeirra. Kaldur sannleikurinn beið í næsta gluggaumslagi.

Þar var búið að leggja á dráttarvexti og kostnað auk þess sem snyrtilega orðuð hótun beið viðskiptavina sem áttu sér einskis ills von. Það kostaði tvær heimsóknir til Vodafone að fá leiðréttingu og loforð um að framvegis yrði kreditkort viðkomandi viðskiptavina látið njóta kostnaðarins.

Það er hverju orði sannara sem Sigmar Vilhjálmsson, sölu- og markaðsstjóri Tals, ritaði í Morgunblaðið fyrr í vetur, að helmingur þjóðarinnar skilur ekki símareikninginn sinn enda er hann almennt fullur af einhverjum hýróglífum sem Forn-Súmerar yrðu fullsæmdir af að skilja. Þessu síðasta beini ég til Símans líka, sem ég hef skipt við alla mína ævi, og verð að játa að mér þykir sérstakt að mínir reikningar hækkuðu um 12.000 krónur á mánuði eftir gjaldskrárhækkunina 1. mars sl. sem mig minnir að hafi verið sex prósent. Mín hækkun nam 33 prósentum.

atlisteinn.is skorar á þjóðina að lesa símreikninga sína og tylla gleraugum gagnrýninnar hugsunar á nefið rétt á meðan (þessi síðasta setning var í boði Páls Skúlasonar heimspekiprófessors og fyrrum rektors).

Ó, hve hrátt er það salat?

n1Það er N1 í Mosfellsbæ sem hlotnast sá heiður að vera páskaklósettið á atlisteinn.is. Að vísu fær N1 plús fyrir að hafa opið um páskana en það er skammgóður vermir ef vörurnar eru komnar fram yfir síðasta neysludag. Þannig háttar til um hrásalatið sem N1 í Mosó stillti fram í hillum sínum í dag.

Að vanda er atlisteinn.is seinþreyttur til vandræða og í dag átti að renna eftir einhverju einföldu og ófrumlegu á grillið. Pylsur frá SS urðu fyrir valinu, enda velja Íslendingar þær víst og atlisteinn.is er alfarið í eigu Íslendinga. Þegar tekið var að svipast um eftir meðlæti kom í ljós að síðasti neysludagur hrásalatsins sem N1 bauð upp á var 9. apríl en honum lauk á miðnætti áður en þessi færsla var rituð, á föstudaginn langa, 10. apríl.

Ekki er útilokað að N1 hafi boðið upp á þetta forna hrásalat til að minnast þjáningar frelsarans, um það skal ósagt látið. Starfsfólkið fékk eitt lokatækifæri til að forðast að hljóta titilinn klósett vikunnar en það var að selja svekktum neytendunum hluta af kartöflusalatbirgðum pylsusölu sinnar í skaðabætur. Þessu var hafnað með einu penu nei-i og titillinn þar með í höfn. Til hamingju N1, þið eruð páskaklósett atlisteinn.is.

 

 

 

Sitt hvað er í Krónu verð kassa og hillu

Verslanir Krónunnar eru klósett vikunnar, þó einkum Krónan hér í Mosfellsbæ. Það er ekki einleikið hve oft verðmerkingar á hillum eru rangar og á kassanum reynist verðið svo allt að þriðjungi hærra. Þetta fékk ég að reyna á einhverri pastasósu sem merkt var með 96 krónum í hillu. Meðan ég gekk að kassanum jókst verðbólga á landinu greinilega hröðum skrefum því þar kostaði sama vara 134 krónur fimm mínútum eftir að ég hafði tekið hana úr hillunni.kronan

Þetta var um kvöldmatarleytið og Úlfur Eggertsson verslunarstjóri ekki við. Ég þekki hann og hef tekið við hann viðtal, til dæmis þegar rafmagnið fór af nær öllum Mosfellsbæ í fyrrasumar. Ég held að Úlfur sé sómamaður, ég upplifði hann þannig. Á staðnum var hins vegar stúlka sem sennilega er aðstoðarverslunarstjóri og óhætt að segja að hún taki hlutverk sitt ekki mjög alvarlega. Ég knúði dyra á sjóðsherberginu og sagði ‘Afsakaðu, má ég bera eitt undir þig?’

Viðbrögðin voru mesta ömurð íslenskrar verslunarsögu. ‘Hvað?’ sagði aðstoðarverslunarstjórinn ungi og leit ekki einu sinni á mig heldur starði sem dáleidd á tölvuskjá. Ég ákvað að sóa ekki tíma mínum frekar heldur fór til baka á kassann og greiddi 134 krónur fyrir sósuna sem kostaði 96 krónur í hillunni. Starfsfólk á borð við þessa manneskju verðskuldar ekki einu sinni kvartanir.

Þetta er ekki í fyrsta og ekki í annað skiptið sem ég upplifi það hjá Krónunni að hilluverð sé eitt og kassaverð annað. Viðbrögðin eru yfirleitt þau að þetta séu greinilega bara mistök við verðmerkingar. Merkilegt að starfsfólkið geri aldrei þau mistök að verðleggja of hátt á hillunni og maður borgi minna við kassann. Ég bíð spenntur eftir að lenda í því. Þetta hefur gert það að verkum að ég fer ekki í Krónuna í Mosfellsbæ nema í algjörum neyðartilvikum.

Þarna eru lélegir viðskiptahættir og treyst á að viðskiptavinurinn hafi ekki nennu í sér til að fara yfir kassakvittunina eða leggja á minnið hvert hilluverðið var. Lögum samkvæmt ræður hilluverð þó og atlisteinn.is hvetur neytendur til að gera samanburð á þessu tvennu. Ekki bara í Krónunni heldur öllum verslunum. Þeir dagar eiga að vera liðnir að neytendur séu fífl.

MAX1 gerir hreint fyrir sínum dyrum

Eftir að hafa sent MAX1 bílavaktinni formlega kvörtun vegna atviksins sem lýst er hér að neðan fékk ég mjög ánægjulegt símtal frá kvörtunarþjónustu þeirra upp úr helgi. Kurteis og fagmannlegur aðili hringdi í mig og fullvissaði mig um að mönnum þætti þetta mjög miður og starfsfólkinu stæði engan veginn á sama um hvernig staðið væri að því að veita viðskiptavinum þjónustu. Þarna hefði eitthvað skolast til í upplýsingagjöf og farið yrði ofan í saumana á því. Hann náði að minnsta kosti að sannfæra mig og ég er sáttur.

Mér finnst mjög ánægjulegt þegar fyrirtæki ljúka málum á þennan hátt. ‘Eitthvað klikkaði, okkur þykir vænt um að heyra frá þér um málið og við pössum að það gerist ekki aftur.’ Flott. Venjulegur neytandi þarf ekki meira til að málið sé niður fallið og ég er sáttur. Mun láta skipta um næstu peru hjá MAX1 þegar þar að kemur.

MAX1 drullar upp á bak

Það er hvorki meira né minna en MAX1 bílavaktin sem er klósett vikunnar að þessu sinni. Þau dusilmenni slá Euroshopper hér að neðan framljosmargfalt út með svínslegum viðskiptaháttum sínum. Nýjasta viðskiptafléttan hjá MAX1, sem er í eigu Volvo-jöfursins Brimborgar, er nefnilega að gefa verð vöru og þjónustu upp án virðisaukaskatts. Löglegt en gjörsamlega siðlaust. Nú er ekki verið að halda því fram að atlisteinn.is sé einhver siðapostuli en þegar kemur að réttindum neytenda rennur gamla blóðið beint til skyldunnar. Ég mætti þarna keikur á Volvoinum í fyrradag til að láta skipta um peru í framljósi. Ekkert stórmál. Ég spyr um kostnaðinn og ekki stendur á svörum: Pera 1.500 kall, vinna 310 krónur.

Ég vatt mér í málið, ekki vil ég vera ólöglegur í umferðinni, og keypti að auki 2,5 lítra af rúðuþvagi á sértilboði, 322 krónur (hræódýrt miðað við N1 sem tekur 250 fyrir lítrann). Mér er afhentur reikningur upp á 2.503 krónur og þótt stærðfræði hafi aldrei verið mitt besta fag (guð veri vitni mitt um þá ömurð sem ég lét frá mér fara í tímunum hjá Karli Valgeiri Jónssyni í Garðaskóla á níunda áratugnum!) skynjaði ég fljótlega að 1.500 + 310 + 322 verða seint 2.503 krónur. Við afgreiðslumaðurinn lögðumst í efnahagsrannsóknir og hvað kemur í ljós? Jú jú, fjögur hundruð og eitthvað krónur í virðisaukaskatt. Endilega ekkert að vera að nefna það þegar viðskiptavinurinn spyr upphaflega. MAX1 er 4. gráðu klósett atlisteinn.is þessa vikuna. Til hamingju.

Euroshopper er klósettið þessa viku

p2190149

Kreppa og allt það en er þetta ekki frekar ódýr leið til að spara? Það leggst hér með við drengskap atlisteinn.is að þessi pakkning af marsípanbrauðum var keypt í þessu ástandi og myndin er ekki sviðsett.

Ekki það að ég eigi að vera að kaupa slíkt þar sem ég er í megrun eftir að hafa slegið öll met í offitu síðastliðin jól en þá sjaldan maður lyftir sér upp myndi ég þiggja öll sex stykkin. Maður sér fyrir sér óprúttna aðila við færibandið hjá framleiðandanum að búa til sjöttu hverja pakkningu ‘frítt’ fyrir fyrirtækið. Nett hagfræði á bak við þetta ef maður spáir í það.