Kleppur er víða

sus 2010Háskólasjúkrahúsið í Stavanger er með heldur sérstakan gest þessa dagana ef marka má frétt í Rogalands Avis. Þetta er geðklofahermir sem þarf hvorki meira né minna en heila langferðabifreið undir sig. Hermirinn er ætlaður starfsfólki geðdeildarinnar til að öðlast örlítið næmari skilning á því hvað geðklofasjúklingar á deildinni glíma við án þess að þurfa rútu til þess. Gripurinn er á ferð milli geðdeilda í Evrópu og stoppar í einhverja daga hérna. Gefi þetta einhverja mynd af viti finnst mér tæknin nú komin á óhugnanlegt stig en það fannst mér svo sem líka þegar ég fékk mitt fyrsta SMS árið 1996. (MYND: Fyrstu skrefin í Noregi, við (þá ekki) hjónin við störf á háskólasjúkrahúsinu í ofbirtugallanum. Tréð vinstra megin er gjöf frá vinabæ Stavanger í Úkraínu, Chernobyl.)

Geðdeildin hjá SUS (Stavanger Universitetssykehus en ekki Sambandi ungra sjálfstæðismanna þótt þeirra geðdeild sé örugglega metnaðarfull) er mér reyndar ekki með öllu ókunnug. Ég sótti um vinnu þar haustið 2010…og fékk hana. En mætti aldrei. Hreinlega gleymdi þessu alveg og var svo kominn á bullandi sláturvertíð hjá Nortura, ataður blóði og innyflum dýra upp fyrir haus, þegar ég mundi eftir nýju aukavinnunni. Hef án efa gert mörgum vistmanninum greiða með því að vera ekkert að banka upp á.

Nú er ég ekki maður sem labbar sig inn á næstu geðdeild og sækir um vinnu svona dags daglega. En ég var að vinna á sjúkrahúsinu þetta sumar, okkar fyrstu mánuði í Noregi, og var ekki klár á hvað tæki við í atvinnumálum um haustið. Ég rölti því gegnum þennan 8.000 manna vinnustað einn fagran ágústdag og yfir á geðdeildina sem er í býsna huggulegu húsnæði og leitaði þar uppi einn þriggja deildarstjóra. Þetta var ekki alveg svona spontant reyndar, K, læknanemi á gjörgæsludeildinni og mikill dauðarokksunnandi (nöfn látin sitja á hakanum til að vernda þá saklausu og standa undir 200 blaðsíðna þagnarskylduyfirlýsingu SUS sem ég undirritaði og stendur þótt ég láti af störfum, deyi og endurfæðist), gaukaði því að mér að geðdeildin væri oft á höttunum eftir fólki sem ætti meira en stöngina í bekk og gæti hugsað sér að sitja yfir vistmönnum sem gefa þyrfti sérstakt auga. (MYND: Rúmu ári seinna og rétt áður en ég lét af störfum á sjúkrahúsinu. Þá var ég kominn með heila skrifstofu undir mig sem þetta hús hýsti af trúmennsku.)susii

Þetta var kveikjan að heimsókn minni og eftir norskum formlegheitum var hún bókuð og ég beðinn að koma aftur í viðtal eftir þrjá daga. Ég hef nú verið í forvitnilegum atvinnuviðtölum hér (þar af einu upp á tvo klukkutíma) en þetta var mikil reynsla. Þrjár konur sátu yfir mér og röktu úr mér garnirnar í sambandi við geðsjúkdóma, fordóma, hugsanlega dóma yfir mér sjálfum í réttarvörslukerfinu og notkun mína á áfengi sem ég sagði vera innan marka. Tók þó aldrei fram hvaða mörk það væru.

Að lokum var ég boðinn velkominn á næturvakt sem ringevikar (lausráðinn afleysingamaður sem hringt er í eftir þörfum) með því skilyrði að ég gæti lagt fram vottun lögreglu á sjálfum mér (n. politiattest) um að ég væri ekki tveir hættulegir stórglæpamenn dulbúnir sem gamlar konur (Löggulíf, 1985). Slíkt vottorð átti ég glænýtt enda nýbúinn að panta það í tengslum við atvinnuumsókn hjá Securitas í Stavanger svo því var auðreddað.

Ég er sem sagt bókaður á mína fyrstu vakt og kvaddur með virktum. Svo kom ég aldrei. Ég var skíthræddur um að þetta yrði dregið upp þremur mánuðum seinna þegar mér var boðin staða sem yfirmaður á Intern Service-sviði sjúkrahússins en boðleiðir milli deilda virðast ekki vera rafrænar á stofnuninni. Svo fór að ég þáði þá stöðu og gegndi henni í níu og hálfan mánuð þar til olíubransinn breiddi út sína hlýju sæng. Líf mitt sem millistjórnandi í norska heilbrigðiskerfinu væri efni í n pistla hér en úr því yrðu svo langvinn og þreytandi málaferli við opinbera aðila (og jafnvel heilu ríkin í Norður-Afríku) að ég stend ekki í því.

Athugasemdir

athugasemdir