Kjörinn dagur fyrir hvítt brúðkaup (Nice Day for a White Wedding)

fedgarKári Snær Guðmundsson bróðir minn gekk í það heilaga síðastliðinn föstudag, 13. ágúst, klukkan 13 hjá sýslumanninum í Hafnarfirði. Ekki veit ég hvort ég hefði þorað að fara í þetta mál föstudaginn 13. en ég óska Kára og Þórhildi mágkonu minni innilega til hamingju. Að auki er afkvæmi væntanlegt í heiminn undir mánaðamótin og verður væntanlega skírt Atli Steinn Kárason verði það með lim. Sterkt íslenskt nafn. Ég ítreka hamingjuóskirnar og hlakka mikið til að hitta brúðhjónin ásamt frumburði yfir glasi um jólin. (MYND: Við feðgar á jóladag 2008. Kári er lengst til vinstri, ég í miðjunni og pabbi er þessi örvæntingarfulli. Þeir eru vanir mér svona.)

Bókaskápamál hér í Stafangri eru að smella saman. Við Kári söguðum þennan 80 ára gamla skáp sundur í Mosfellsbænum í maí og nú er hann sameinaður á ný. Feðgarnir Elli tilsniðu af listfengi furuborð sem ég keypti í Coop og átti martraðarkenndustu strætisvagnaferð lífs míns með hingað heim. Eftir það birtist Egill Páll Egilsson málari frá Húsavík hér eins og frelsandi engill og bruggaði lakk í réttum lit af mikilli fjölkynngi. Ég átti ekki orð yfir því hve þétt nýr litur féll að fornum og hjólaði þegar í ríkið til að fagna þessum fornleifafundi.
skapur1
Dagurinn í dag fór svo í að raða bókum í hillur og er það mál manna að aldrei hafi þarfari ferð í ríkið verið farin en þegar ég hjólaði eftir hvítvínsbelju um fimmleytið.

Þegar þetta er ritað sitjum við hér með Bubba á fóninum, svörum tölvupósti í gríð og erg auk þess að njóta nýju stofunnar okkar sem er óðum að taka á sig mynd. Ég náði þeim einstaka árangri að fá tvisvar niðurgang af spenningi fyrir hádegi í dag og geri aðrir betur. (MYND: Nýsmíðuðu hillurnar komnar í, glæný fura við hlið 80 ára gamallar furu.)
skapur2
Ég mun hlífa lesendum við frekari umræðum um innanhússarkítektúr á næstunni og snúa mér að harðari þjóðþrifamálum en þetta verður að teljast aðalmálið þessa dagana. Slíkt er eðli flutninga. Fram undan er Rått og råde-hátíðin með Ozzy Osbourne, Prodigy og A-ha auk óteljandi annarra hausthátíða, ferðalag til Björgvinjar þar sem Íslendingar lentu í sínu fyrsta 16. sæti í Eurovision árið 1986 og ég veit ekki hvað. (MYND: Egill Páll hinn húsvíski fer næmum höndum um furuna.)
skapur3
Misstu því ekki af heitasta samevrópska fjörinu sem er nákvæmlega hér á atlisteinn.is, frjálsum og óháðum netmiðli (í mesta lagi háðum áfengi en annað eins hefur nú gerst). (MYND: Eftir málun.)
skapur4
William Michael Albert Broad, betur þekktur undir heitinu Billy Idol, hlýtur kærar þakkir fyrir að lána nafn síns helsta númers í fyrirsögn þessa pistils (þýðingin er mín). (MYND og næstu tvær þar á eftir: Röðun í skáp./Nútímatækni, ég myndaði hverja einustu bókahillu í Mosfellsbænum og notaði til hliðsjónar við að raða upp í hillur hér. Það nýttist meira en margan grunar./Loksins að komast mynd á þetta, endanleg mynd væntanleg næstu daga.)

 

skapur5

 

 

 

 

 

 

skapur6

Athugasemdir

athugasemdir