Keyrt um þverbak

um borFjórðu hverja viku á ég mér ekki líf. Það er vikan sem ég á vakt við losun og lestun flutningaskipanna sem flytja tækjabúnað og rör út á olíuborpallana á Ekofisk og Eldfisk og svo til baka aftur að svo miklu leyti sem þessir hlutir koma til baka. Á hverju ári fara 17 milljónir tonna af hvers kyns búnaði út á olíuborpalla á norska landgrunninu, töluverður hluti af því frá hafnarsvæðinu hérna úti á Tananger. (MYND: Stund milli stríða á vöruþilfarinu á Skandi Feistein í dag og gott að hvíla lúin bein í sól og blíðu.)

Í allan vetur hefur verið býsna annríkt á vaktinni og þessi vika hefur ekki verið nein undantekning. Eftir daginn í dag er hún komin yfir 40 tíma í yfirvinnu, tvö kvöld hefur verið vinna til klukkan 23, tvö önnur til tæplega 21, í dag var unnið frá 08 – 22 og mæting aftur klukkan 10 í fyrramálið á sunnudagsmorgni. Fyrir áramót var ekki mikið um vöruflutningaumferð á sunnudögum en frá því í janúar hefur verið að minnsta kosti eitt skip flesta sunnudaga.

Vikan hefur því verið svefn og vinna út í eitt. Ég mætti síðast í ræktina á laugardaginn fyrir viku og er búinn að hesthúsa hátt í tonn af pizzum og öðrum overtidsmat þetta tímabil. En svona er þetta bara, mikil vinna og getur verið glettilega gaman á síðustu metrunum á laugardagskvöldi eftir 14 tíma keyrslu þegar allur mannskapurinn er orðinn sturlaður af að hlusta á gáma úr stáli lemjast hver utan í annan og velflestir búnir með átta lítra af kaffi yfir daginn. Fýkur þá margt köguryrðið gjarnan um talstöðina í gamni og alvöru. Þá var löngum hlegið hátt, hent að mörgu gaman, eins og segir í kvæði Þorsteins Erlingssonar.pskaegg

Eins og þessi óhollusta sé ekki nóg dreifa norskir vinnustaðir nú páskaeggjum í allar áttir og beið mín einmitt eitt á skrifborðinu hjá mér þegar ég mætti til vinnu á föstudaginn. Eins og svo margt annað er ólík páskaeggjahefð við lýði í Noregi og á Íslandi. Hérna er sjálft eggið úr blómaskreyttum pappa og stútfullt af sælgæti, oft frá ólíkum framleiðendum. Eggið er því eingöngu umbúðir en ekki hluti af óhollustunni eins og maður ólst upp við. Hér verður þó ekki grátið yfir skorti á hinu klassíska íslenska páskaeggi því það kemur í hús á morgun ásamt Egils appelsíni, lambalæri, flatkökum og fleira góðgæti frá þeim hjónum í Islandsfisk sem þreytast ekki við að aka með fullfermi matar frá Svíþjóð og um helstu Íslendingabyggðir í Noregi fjórum sinnum á ári. Gott framtak þar og verðið hóflegt að auki.

Það er þreyttur og brennivínsþyrstur – en sæll – einstaklingur sem leggur höfuð sitt undir væng í kvöld en á næsta leyti eru unaðssemdir páskafrísins, hroðalegur próflestur og hin goðsagnakennda páskaferð í Vinmonopolet sem verður farin á mánudaginn og ekkert sparað til að páskarnir 2013 verði blautasta trúarhátíð ársins. Amen.

Athugasemdir

athugasemdir