Beat Ettlin er 42 ára gamall kokkur sem býr með konu sinni og tveimur börnum í Canberra í Ástralíu. Þeim hjónum var heldur betur gert rúmrusk í gærkvöldi þegar þriggja metra hár óboðinn gestur stakk sér í gegnum svefnherbergisgluggann þeirra og mölbraut hann.
Ettlin sagði að sér hefði fyrst dottið í hug að hættulegur stórglæpamaður, og brjálaður í þokkabót, væri mættur í svefnherbergið enda var fyrirgangurinn mikill þegar viðkomandi hóf að mölbrjóta húsgögn og allt sem fyrir varð. Stórglæpamaðurinn hættulegi reyndist hins vegar vera særð kengúra á flótta sem leist ekki betur á íbúðina, sem hún var kominn inn í, en svo að hún gekk þar berserksgang og ataði veggi og gólf blóði svo einna helst minnti á sláturhús.
Eiginkonan og börnin komust undir rúm en kokkurinn réðst til atlögu við dýrið og náði að koma því fram í stofu þaðan sem það stökk svo út um annan glugga og hvarf í náttmyrkrið.