Jón Páll Sigmarsson – minning

jn pllÍ dag eru 20 ár liðin síðan einn mesti afreksíþróttamaður þjóðarinnar, Jón Páll Sigmarsson, varð bráðkvaddur í miðri réttstöðulyftu í Gym 80 við Suðurlandsbraut, öllum Íslendingum harmdauði. Mér er enn í fersku minni sú stund þegar fréttir af þessu fóru sem eldur í sinu um íslenskt þjóðfélag síðdegis 16. janúar 1993.

Að horfa á íþróttaviðburði í sjónvarpi hefur aldrei verið í miklu uppáhaldi hjá mér en yfir aflraunum gat ég setið höggdofa sem barn og geri reyndar enn, sennilega kveikjan að því að ég tók að lyfta lóðum vorið 1988, fyrir réttum aldarfjórðungi, og dunda mér við þá iðju enn í dag.

Meðal þess sem situr í mér af þessum vettvangi frá níunda áratug síðustu aldar eru þessi fjögur skipti sem Jón Páll heitinn vann titilinn sterkasti maður heims, 1984 (keppnin fyrir það ár reyndar haldin í ársbyrjun 1985), 1986, 1988 og 1990. Þá má ekki gleyma keppninni Sterkasti maður allra tíma árið 1987, eins konar einkaeinvígi Jóns Páls við þá Bill Kazmaier og Geoff Capes í Huntly-kastalanum í Aberdeenshire í Skotlandi þar sem Bretinn og Bandaríkjamaðurinn máttu þola ósigur í átta af tíu keppnisgreinum.

Keppnin um sterkasta mann heims árið 1986, sem fram fór á frönsku rívíerunni, í Nice, er mér sérstaklega minnisstæð. Jón Páll og Capes börðust þar um fyrsta sætið, báðir með miklum tilþrifum, og stóð Íslendingurinn uppi með titilinn og hafði fjögur stig á Bretann eftir vægast sagt hörkukeppni. Annar minnisstæður keppandi það árið var Bandaríkjamaðurinn Rick “Grizzly” Brown sem var akfeitur og sat jafnan með súrefnisgrímu fyrir vitum sér milli keppnisgreina. Hann slasaðist og hafnaði í neðsta sæti en sigraði alla andstæðinga sína í “krossfestulyftunni” þar sem keppendur héldu á tólf kg kampavínsflöskum í axlarhæð í tímaþraut. Hentaði þá vel fyrir Grizzly að hann kom handleggjunum varla mikið neðar en í lárétta stöðu vegna vaxtarlags síns og rúllaði greininni upp.

Síðasta titil sinn í Sterkasta manni heims hrifsaði Jón Páll til sín með bægslagangi í Finnlandi árið 1990 eftir hroðalegt einvígi við O.D. “Nightmare” Wilson sem bjartsýnustu menn töldu að væri hreinlega tapað eftir steðjalyftuna (fimm 150 kg steðjum lyft upp á palla, einum af öðrum) en þá stóð Wilson í broddi fylkingar með 46 stig, 5,5 stigum yfir Jóni Páli. Ógurleg þyngd martraðarinnar varð henni þó fjötur um fót í lokagreininni, 200 metra kapphlaupi með 100 kg af múrsteinum á bakinu, og munaði svo miklu á tíma þeirra Jóns Páls að víkingurinn át upp forskot andstæðingsins og það litla sem þurfti betur. Á þessu skemmtilega móti var Finninn Ilkka Nummisto einnig eftirtektarverður. Hann hefði sennilega getað verið faðir allra andstæðinga sinna en hafnaði í þriðja sæti af þeim átta sem kepptu þetta ár.

Ég gæti haldið endalaust áfram með minningar um þennan fallna kappa, óvænt Evrópumet í réttstöðulyftu í beinni inni í sal hjá RÚV vorið 1982, Hálandaleikarnir í Skotlandi, stórsigrar á Íslandsmótum í vaxtarrækt samhliða kraftlyftingum og síðast en ekki síst auðvitað skráning í Heimsmetabók Guinness fyrir að lyfta stærstu viskíflösku í heimi árið 1987 (100 ára afmæli Grant’s).

En ég læt staðar numið hér. Þetta er ekkert mál…

Athugasemdir

athugasemdir