Jólakveðja

jolakvedjaatlisteinn.is óskar lesendum, vinum og velgjörðarmönnum til sjávar og sveita, hérlendis sem erlendis, gleðilegra jóla og farsæls árs 2010 þegar þar að kemur. Stemman og bragurinn hér í Mosfellsbænum eru að verða býsna jólaleg, búið að sjóða jóladagshangikjötið sem nú liggur og kólnar í eigin soði og ætti að verða töluvert ljúft undir tönn annað kvöld með tilheyrandi meðlæti, jólalög í boði Bylgjunnar í bakgrunni og dökkur Stout-bjór frá brugghúsinu í Ölvisholti í glasi með skvettu af Egils appelsíni út í. Gerist ekki öllu afslappaðra.

Töluverð umræða hefur átt sér stað í fjölmiðlum undanfarið um jólamat landsmanna, hefðir og venjur. Kennir þar ýmissa grasa þótt viss stef séu óneitanlega meira áberandi en önnur. Jafnvel hefur verið rætt um lagalega stöðu skötunnar gagnvart fjöleignarhúsum en sitt þykir hverjum um ilminn sem þeirri fæðu fylgir.

Sjálfur borða ég ekki skötu, kom niður einum bita á Þorláksmessu 1999 vegna veðmáls og tókst með naumindum að fyrirbyggja að sá biti kæmi sömu leið til baka. Tvö glös af appelsínusafa og stór biti af súkkulaðiköku rétt dugðu til.

Ófrávíkjanleg hefð í jólamat innan minnar fjölskyldu allt frá minni fæðingu og reyndar lengur hefur gert ráð fyrir kalkúni á aðfangadag, hangikjöti á jóladag og hamborgarhrygg um áramótin. Kalkúninum fylgir fylling að amerískum sið og krefst tilbúningur hvors tveggja mikils nosturs og var, langt fram á níunda áratug síðustu aldar, tilefni töluverðrar tilraunastarfsemi foreldra minna og margra blaðsíðna leiðbeininga- og uppskriftabæklings sem smám saman varð til. Síðasta stóra uppgötvunin í þessum efnum var byltingarkennd aðferð til að fyrirbyggja þurrk í kjöti fuglsins.

Það mál var leyst með því að gegnvæta afþurrkunarklút í einu kílói af bráðnu smjöri og leggja yfir skepnuna meðan hún dvaldi í ofninum. Útkoman var helsafaríkt kjöt og bragðbót sem ekki skemmdi fyrir. Engin megrunarfæða auðvitað en jólin eru nú einu sinni hátíð ljóss, friðar og bakspiks.

Með þeim orðum segi ég gleðileg jól 2009 og gæfuríka framtíð.

Athugasemdir

athugasemdir