Ég segi kannski ekki að hún sé ekki metin til fjár en það er dagljóst að við getum farið að hætta þessu mat-væli hér á heimilinu eftir að jólagjöfin frá stéttarfélaginu mínu, Industri Energi, kom í hús upp úr hádegi í dag. Óhætt er að segja að innkaupastjórarnir þar á bæ hafi notað hugmyndaflugið út í ystu, kaffi, sælgæti, jólaskinka, salami, reyktur urriði, serrano-skinka, einhvers konar norsk útgáfa af svínasultu, feta-ostur og jólasíld í krukku var afhent í stærðarinnar kassa. Ýmiss konar góðgæti þykir sígild jólagjöf fyrirtækja (og stéttarfélaga) í Noregi en ekki er lengra síðan en í síðustu viku að Rósa fékk hvítvín, rauðvín, unaðslega gott pepperoni, blöndu af öðru kjötáleggi og heilt fenalår sem er saltað og þurrkað lambalæri, mikill jólamatur hér en því miður ekkert sérstaklega bragðgóður að okkar mati svo Rolf uppi á þriðju fékk það óvænt gefins sama kvöld og hefur ekki sést síðan. Hér er því fullur ísskápur og ekki tæmist hann þegar þau hjón í Islandsfisk koma sína árlegu jólaferð á sunnudaginn en þar lögðum við inn digra pöntun á dögunum. Ég mun ekki passa í nein föt eftir viku…hvað þá tvær.
Lítið fór fyrir nýliðinni helgi. Á laugardaginn lagðist flutningaskipið BBC Winter að bryggju hjá NorSea í Tananger með 1.600 tonn af rörum frá Veracruz í Mexíkó innanborðs. Að bestu manna yfirsýn þótti ekki annað tækt en að kalla til harðasta löndunargengi Norðurlanda í verkefnið en svo vill til að undirritaður á sæti í því í hjáverkum. Ég fékk því símtal frá vaktstjóra yfir fyrsta rauðvínsglasinu (mínu, ekki hans) á föstudagskvöldið og rann þegar blóðið til skyldunnar. Mæting 10:30 á laugardagsmorgun. Við stóðum 25 tíma með 10 tíma næturhléi á milli og klukkan 22 á sunnudagskvöld voru eitthvað um 1.200 tonn komin á bryggju. Daggengi mánudagsins kláraði dallinn svo í gær (hann var að minnsta kosti farinn þegar ég mætti í vinnuna í morgun). (MYND: Horft niður á gólf af rörastaflanum í annarri lestinni úr 12 metra hæð á sunnudagsmorgun. Þá vorum við búnir með hina lestina daginn áður. Gráu rörin efst eru tæpar 14 tommur í þvermál til að gefa hugmynd um víddir.)
Svona verkefni eru ákaflega gefandi, að minnsta kosti launalega séð en eins má ekki gleyma hinum menningarlega hvetjandi alþjóðatengslum sem eiga sér stað við að hitta áhafnir frá öllum heimshornum og ræða við þær um lífið og tilveruna. Þessir voru frá Rússlandi og Filippseyjum og með gestrisnari áhöfnum sem ég hef unnið með. Skipstjórinn margbað okkur afsökunar á að koma og trufla okkur við vinnuna með eins hjákátlegri fyrirspurn og þeirri um hvaða leyti við teldum að hann gæti látið í haf frá þessum botnfrosna útkjálka helvítis og reitti hár sitt í þögulli bræði svo lítið bar á þegar ég sagði honum að þeir yrðu að koma sér gegnum eina norska desembernótt í viðbót.
Ég var nú ekki með alferskarsta móti þegar ég birtist á heimili mínu undir miðnætti á sunnudag en strax skárri í vinnunni í gærmorgun enda átta til fjögur rétt eins og kökusneið við hlið svona helgar. Ég er að hugsa um að afþakka alla yfirvinnu næstu helgi og hvíla mig bara fyrir hressilega bakvakt 19. – 30. desember. Helgin hefst með rammíslensku pöbbakvöldi á Munken í Stavanger klukkan 17 á föstudaginn, heldur áfram með jólahlaðborði bryggjugengisins hjá ConocoPhillips á Hall Toll á laugardag og lýkur vafalítið í fangageymslum lögreglunnar í Stavanger.