Jólagjafakaup – heimsmetin riða til falls

toxicityFöstudaginn 13. desember var látið til skarar skríða í operation: gjafir, rokið beint í verslunarmiðstöðina Kvadrat eftir vinnu og jólagjafainnkaupum lokið þar frá a – ö á sléttum 34 mínútum og það að meðtalinni rauðvínsferð í ríkið. Ég held að þetta sé met en vera má að árið 2004 hafi ég stútað þessu á 28 mínútum í Kringlunni. Hlutfallslega er tíminn í gær þó mun betri þar sem nú erum við tvö og fjölskyldur á báða bóga.

Eitthvað af innkaupunum átti sér stað í versluninni Platekompaniet og þar sem ég sveima um, við það að missa mig í valkvíða og almennri firringu, kem ég auga á eitt helsta tónverk síðari tíma, Toxicity-plötu System of a Down frá 2001. Þetta stykki er algjörlega toppurinn á þeirra ferli að mínu viti þótt margt öflugt hafi þessir snillingar sent frá sér síðan en diskinum var stolið í partýi hjá okkur í Mosfellsbænum 2008 eða ’09 (greinilega eintómt pakk sem maður þekkir) og mér hefur ekki tekist að finna hann í einni einustu tónlistarverslun síðan. Ég er svo gamaldags að ég fer enn út í búð og kaupi mér tónlist á diskum svo listamennirnir fái nú eitthvað fyrir að leggja þetta allt á sig og svo framvegis.

Þetta fyllti mig mikilli hamingju og til að halda alveg sérstaklega upp á þetta keypti ég að auki handa sjálfum mér fyrstu þáttaröð Breaking Bad en ég hef ekki séð einn einasta af þessum umtöluðu þáttum sem komið er. Hvor diskur um sig kostaði 99 krónur norskar svo það þarf ekki alltaf að vera dýrt að skemmta sér.

Dagskrá kvöldsins var hins vegar rétt að byrja því eftir Kvadrat-ævintýrið átti Rósa pantaðan tíma í að láta líma á sig einhverjar gervineglur (sem ég á væntanlega eftir að fá að naga um jólin þegar ég er búinn með einkasafnið) en mín beið hins vegar mitt fyrsta brasilíska vax í Noregi á Bare Clinic við Storgata hérna niðri í bæ í Sandnes. Þetta er aðeins dýrara hér en á Íslandi og aðeins óþægilegra líka, ekkert lúxus súkkulaðivax heldur vax byggt á hunangi sem er mun þynnra og notað í minna magni. Aðgerðin hér er hins vegar mun fljótlegri, um 25 mínútur, en ég þekki ekki mörg dæmi um hluti sem taka styttri tíma hér en á Íslandi.

Síðasta skylduverkefni gærkvöldsins var ekkert leiðinlegt og fólst í því að sækja haug af malti og appelsíni til íslensku snillinganna í Tørrfisk snack sem voru í jólaferðinni til Stavanger og Sandnes. Það fylgir því alltaf viss tilfinning að eiga fullt af Egils appelsíni inni í skáp og þessir framtakssömu einstaklingar tóku á hárréttum tíma við markaðnum af heiðurshjónunum í Islandsfisk sem nú hafa dregið sig út af Noregsmarkaði vegna óhagstæðrar skattaframkvæmdar gagnvart þeim hér í landinu.

Í þessum skrifuðum orðum erum við á leið út úr dyrunum í indverskt jólahlaðborð á Indian Tandoori hérna niðri í bæ, alveg frábærum veitingastað sem er í uppáhaldi hjá okkur af indverskum stöðum á Stavanger-svæðinu. Ég er alveg tilbúinn að fara á hefðbundin norsk jólahlaðborð en það er þá að minnsta kosti háð því skilyrði að það sé í boði vinnuveitanda því norskur jólamatur er ekki beint líkur því sem við Íslendingar þekkjum svo vel. Ég læt glaður ofan í mig lutefisk, pinnekjøtt og ribbe, ekkert mál, en þegar jólaborðið er fyrir eigin reikning fara mín tólf stig til….Indlands!

Athugasemdir

athugasemdir