Jólafrí og tilheyrandi

jolafriÍ gær, föstudag, hófst 18 daga jólafrí hér á bæ og var allkærkomið svo ekki sé meira sagt. Nú eru allar atvinnutengdar áhyggjur endanlega úr sögunni þar sem Rósa fékk atvinnutilboð frá háskólasjúkrahúsinu á þriðjudaginn. Málin litu ískyggilega út á tímabili þar sem fyrrverandi vinnuveitandi okkar beggja, starfsmannaleigan Proffice, hafði boðað að engin aukafrí yrðu veitt um jólin í þeim deildum Nortura-sláturhússins sem eru í fullri keyrslu um jólin. Þar á meðal er pylsupökkunin þar sem Rósa starfaði. Hún sagði þar af leiðandi upp í byrjun desember með síðasta vinnudag föstudaginn 17. Tilboð um nýtt starf frá og með 5. janúar kom því nokkuð tímanlega.

Forveri minn í starfi, Else-Marie Brattaas, lét af störfum í gær svo nú hef ég formlega tekið við stjórnartaumunum og byrja ferilinn auðvitað á 15 daga jólafríi. Eftir 35 ára starf á sjúkrahúsinu var hún kvödd með fjölmennu samsæti, snittum, kaffi og leiðinlegum ræðuhöldum. Else-Marie lauk starfsferlinum með því að setja mér fyrir býsna snúið heimaverkefni fyrir Íslandsheimsóknina, ég þarf að útvega henni eiginhandaráritun Arnaldar Indriðasonar rithöfundar. Else-Marie er forfallinn aðdáandi Arnaldar, hún trúði mér fyrir því einhvern tímann um daginn, og les hann upp til agna í norskri þýðingu. Mér rennur blóðið til skyldunnar og mun fara í málið, það er ljótt að svekkja tæplega sjötugar norskar konur finnst mér.

Það er undarleg tilfinning að sitja hér og vera að fara í loftið til Íslands á mánudagsmorgun eftir rúma sjö mánuði í Noregi. Mér leiðist fátt meira en að fljúga, farþegaflugvélar eru djöfulleg fyrirbæri hönnuð fyrir dverga þar sem ómögulegt er að koma sér þægilega fyrir, borða, drekka og fara á klósettið. Núna finnst mér tilhugsunin hins vegar bara ágæt og get varla beðið. Samt þarf ég fyrst að fljúga héðan til Óslóar og svo þaðan áfram til Íslands. Enn þá hroðalegra verður ferðalagið til baka sem er beint flug með Fokker Flugfélags Íslands frá Reykjavíkurflugvelli hingað til Stavanger 4. janúar. Fokkerinn flýgur hvort tveggja lægra og hægar en Boeing 757 sem táknar að flugið jafnast á við flugleiðina Keflavík-New York í tíma en Keflavík-Helvíti í óþægindum, hávaða og sennilega óætum mat. En hvað gerir maður ekki til að stíga á fósturjörð?

Athugasemdir

athugasemdir