Jólabjórprófun atlisteinn.is

bjrprfunEins og þeir vita sem mig þekkja drekk ég ekki bjór. Ég drakk hann hins vegar á yngri árum, nánar tiltekið frá því að hann var leyfður á Íslandi 1. mars 1989 og til 1994. Þá varð ég bara að játa það fyrir sjálfum mér að mér finnst bjór einfaldlega vondur. Auk þess er ekki til ópraktískara áfengi. Þetta er mikið magn af vökva með mjög lágri vínandaprósentu sem maður er símígandi af. Lítið spennandi við það.

En vísindin efla alla dáð eins og Jónas orti svo ég ákvað að fórna mér enn einu sinni á altari þekkingarinnar, prófa tvær tegundir af norskum jólabjór og birta niðurstöðurnar hér sauðsvörtum pupulnum til upplýsingar. Í helgarferðinni í ríkið greip ég því í þessum göfuga tilgangi Juleøl frá Christianssands Bryggeri og Julefnugg frá Berentsens Brugghus. Báðir dökkir og báðir 6,5 prósent.

Julefnugg reyndist vera vel rammur djöfull og ekkert sérstakur á bragðið en það vandist reyndar eftir því sem leið á flöskuna. Hinn var öllu mildari en bjó að öðru leyti ekki yfir neinum afgerandi karakter, ósköp dæmigerður bjór fannst mér og ekkert jólalegt við hann. Báðir hefðu án efa verið þokkalegir með slettu af Egils appelsíni út í. Að minnsta kosti er ljóst að ég er ekkert á leiðinni að hefja bjórdrykkju á ný.

Nýliðinn föstudagur, 11.11.11, var stórmerkilegur fyrir utan þessa fallegu runu af tölunni einn. Hann markaði nefnilega eins og hálfs árs búsetu okkar hér í Noregi, 11.05.10 til 11.11.11. Ekki var annað talið hægt en að fagna þessu svo við keyptum fullt af áfengi og elduðum mikinn kjúklingarétt á wok-pönnu. Fór svo fram mikið át og mikil drykkja auk þess sem við kveiktum upp í arninum. Sú athöfn hefur reyndar misst hluta af sjarma sínum eftir að varmapumpan kom til sögunnar. Nú er funheitt í húsinu allan sólarhringinn og hefur eldstæðið því glatað hluta tilgangs síns og er orðið fagurfræðilegs eðlis eingöngu í stað þess að vera einnig til húshitunar svo sem var í fyrravetur. Nú líður mjög að því að fyrsti rafmagnsreikningur eftir varmapumpu berist og ég hlakka mikið til að sjá hvort veruleg bylting hafi orðið í straumkostnaði með tilkomu gripsins.

Athugasemdir

athugasemdir