Jæja, þar fóru 600 milljóna króna stjórnlagaþingkosningar eins og hendi væri veifað. Einhvern veginn kemur þessi úrskurður Hæstaréttar mér ekkert á óvart, það er hreinlega bara hending ef eitthvað gengur upp á Íslandi þessi árin. Janúar 2011 verður þar með þriðji janúarmánuðurinn í röð til að fela í sér stórtíðindi sem eiga sér ekki hliðstæðu á Íslandi eða hafa ekki átt í áratugi. Í janúar 2009 urðu svo hörð mótmæli við Austurvöll aðfaranótt 22. janúar að lögregla beitti þar táragasi í fyrsta sinn síðan 30. mars 1949. Fimmta janúar 2010 synjaði forseti Íslands síðara Icesave-frumvarpinu staðfestingar í kjölfar skriflegrar áskorunar 60.000 Íslendinga og núna er stjórnlagaþinginu sópað út af borðinu með úrskurðarorði Hæstaréttar sem var nákvæmlega ein málsgrein (að undangengnum rökstuðningi auðvitað). Fastir liðir eins og venjulega fylgdu svo á Alþingi sá ég í RÚV-fréttum í kvöld – fólk æpandi svívirðingar í pontu og þingheimur öskrandi á móti með Ástu Ragnheiði í trommusóló á bjöllunni. Þetta er að verða býsna kunnugleg sjón.
Kosningaþátttaka í stjórnlagaþingkosningunum var 36,77 prósent sem er á pari við sambærilegar kosningar í Túrkmenistan hér um árið en engu að síður þykist ég vita að stjórnarherrarnir og -frúin skirrist ekki við að boða til nýrra kosninga hvað sem því líður og varla munu þær verða ódýrari þar sem nú þarf rammgerða kjörkassa og burðugri kjörklefa en pappaskilrúm. Kosningaþátttaka eykst þó varla með nýjum kosningum, nú nenna þeir ekki að fara aftur sem rétt höfðu nennu í sér til að hafa sig á kjörstað í haust svo þátttakan verður sennilega nálægt því sem hún var á Tálknafirði, 26,6 prósent, sem mig minnir að hafi verið það lægsta á landinu. Nýjar kosningar yrðu reyndar gullið tækifæri til að prófa nýjar aðferðir við kynningu þátttakenda en þær voru að einhverju leyti umdeildar og mikið gagnrýnt að þekkt sjónvarpsandlit hefðu mokað inn atkvæðum. Inga Lind Karlsdóttir nagar sig sennilega í handarbökin nú eftir að hafa ljóstrað upp um tannleysi og ónýtt hár. Nú vita kjósendur þetta í næstu umferð. Nóg um stjórnlagaþing.
Ég sá líka í fréttum að Íslendingar vilja gjarnan koma og aka strætisvögnum í Bergen enda kjörin góð. Ekki er nóg með að þeir streymi frá Íslandi heldur flykkjast íslenskir vagnstjórar héðan frá Stavanger til Bergen þar sem Tide Bus í Bergen borgar betur en Kolumbus hér í Stavanger sem er í eigu franska nískufirmans Veolia. Strætisvagnarnir í Bergen eru líka gulir eins og á Íslandi en grænir hér svo maður skilur að Íslendingar leiti í eitthvað sem þeir þekkja. Af samtölum við íslenska strætóbílstjóra hér held ég að þetta sé fínt starf, launin góð og endalausar aukavaktir fyrir þá sem slíkt vilja. Ég tók viðtal við einn fyrir DV fyrr í vetur og hann kvartar ekki yfir launum hér en segir þau miklu betri í Bergen og var einmitt að fá vinnu hjá strætó þar núna fyrir viku.
Nú tekjur rekkjan við mér, næstu dagar verða ekkert sérstakir, langt og hryllilegt námskeið í vinnunni á morgun og algjör maraþonráðstefna á fimmtudaginn frá 08 – 15:30 þar sem kynna á stefnu og markmið sjúkrahússins árið 2011 fyrir öllum yfirmönnum. Hérna í Noregi er aldrei hægt að hafa neitt stutt og einfalt, þvert á móti verður það að vera mjög langt og flókið með gríðarlegri áherslu á smáatriði eins og hvort mögulegt sé að spara 20 krónur yfir árið með því að kaupa einum pakka færra af latexhönskum á kaffistofuna í örverufræðideildinni. Þetta verður fjör. Hins vegar styttist í heilt helgarfrí sem verður núna næst. Ekkert uppvask, enginn spítali, bara líkamsrækt, bíó, svefn og almenn leti. Þetta gerist ekki um hverja helgi orðið.