Ekki getur maður annað an varpað öndinni léttar eftir hughreystandi ummæli Illuga Gunnarssonar, þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins, í fréttum Stöðvar 2 í kvöld þar sem hann fullyrðir að Íslendingar eigi svo mikil auðæfi í lífeyrissjóðunum að þeir standi betur en nær allar aðrar þjóðir. Þetta eru gleðitíðindi, Illugi, við erum þá ekkert að stressa okkur frekar á þjóðargjaldþroti og skuldum upp á 260 prósent af landsframleiðslu. Lífeyrissjóðirnir bjarga málunum. Loksins fer ég áhyggjulaus í rúmið. (MYND: Illugi Gunnarsson/Af vefsetri hins háa Alþingis)
Hollendingurinn Gerard van Vliet átti hins vegar nokkra dúndurpunkta í Silfri Egils í dag. Hann fer fyrir hópi 300.000 hollenskra sparifjáreigenda sem urðu fyrir barðinu á Sigurjóni Árnasyni og félögum í Landsbankanum. Gerard bendir skýrt og skorinort á að hollenskir þingmenn hafi þungar áhyggjur af fjárhagsstöðu Íslendinga og að íslenski forsætisráðherrann sé ekki einu sinni virtur svars af breskum starfsbróður sínum. Engum dylst að hið síðarnefnda er rétt.
Illugi og Gerard eru greinilega ekki alveg sammála um stöðu Íslands. Maður veltir því fyrir sér hvor hafi meira til síns máls. Sem betur fer er atlisteinn.is ópólitískt vefsetur og er því ekkert að vasast í slíkum vangaveltum.
Þetta eru allt hressandi fréttir og ekki síst frétt Ríkisútvarpsins í kvöld um nýjan heitavatnsskatt Skattgríms J. Búum ríkissjóði áhyggjulaust ævikvöld.