Ítölsk þvermenningarflétta

pellegrinoÉg sat rúmlega tveggja klukkustunda langan ársfjórðungsfund vörustjórnunardeildar ConocoPhillips í gærmorgun. Flestir sofna sennilega bara við að lesa þetta enda var fundurinn að meginstefnu til engin skemmtun, fjallaði um vöruflæðið héðan út á borpalla á Ekofisk- og Eldfisk-svæðunum og aftur til baka. Venjulegur vinnufundur með smurbrauði og kaffi latte á kantinum, flestir almennt andlega fjarverandi. (MYND: NHO Vestfold.)

Síðasti hálftíminn var þó bara bráðskemmtilegur og náði að snúa grámyglulegum nóvembermorgni upp í hreina uppljómun. Þá steig Ítalinn Pellegrino Riccardi á stokk og fjallaði um þvermenningarleg samskipti með Noreg sem meginsvið. Það skemmtilegasta var að þetta gerði hann á stórgóðri norsku í bland við hreina Oxford-ensku. Riccardi þessi, sem hefur helgað líf sitt athugunum á samskiptum fólks af ólíku þjóðerni, er fæddur og uppalinn í Bretlandi af ítölsku foreldri en hefur haft Noreg sem heimili síðastliðin 15 ár og er kvæntur norskri konu.

Honum var því í lófa lagið að flakka á milli breskrar ensku, ítölskuskotinnar ensku og vel skiljanlegrar norsku með vægum enskum hreim. Maðurinn átti þarna stórleik og gerði auðvitað stólpagrín að kirfilega lokuðum og jarðbundnum Norðmönnum sem eru sennilega eins ólíkir Ítölum og hægt er. Með því fyrsta sem hann tók fyrir var þegar knattspyrnumaðurinn Morten Gamst Pedersen keypti sér Ferrari og mætti á honum beint á Ullevål-leikvanginn í Ósló. Eitthvert blað birti mynd af þessu á forsíðu með fyrirsögninni “Hver heldur hann að hann sé?” og vísaði þar í Janteloven hans Aksel Sandemose sem nú til dags eru talin ágæt útlistun á norskri þjóðarsál.

“Hvað er að þeim?” spurði Riccardi, “ef þú kaupir þér Ferrari áttu að sýna hann!”

Einhverja af fyrirlestrum hans má finna á YouTube, þar á meðal Er det lov å lykkes i Norge? en titillinn einn segir meira en mörg orð um Norðmenn og Janteloven fyrrnefndu. Marga skemmtilega punkta í viðbót má tína til síðan í gær, til dæmis þegar Riccardi segir frá því er hann fékk föður sinn aldraðan í heimsókn til Noregs. Það fyrsta sem karlinn sagði þegar hann kom út úr flugstöðinni í Stavanger (Sola) var: “Hvar eru allir?”

Þá voru þrjá myndir frá baðströndum í Brasilíu, á Spáni og að lokum Solastranden hér í nágrenninu skemmtilega lýsandi, ósundurgreinanleg kös af fólki á tveimur fyrrnefndu en ein og ein manneskja á norsku ströndinni og alltaf tíu metrar í næsta mann.

Ekki er örgrannt um að fundargestir hafi öðlast nýja og framandi sýn á fjölmenningarleg málefni undir lok þessa fundar sem hófst á syfjulegum nótum. Ég gerði það að minnsta kosti.

Athugasemdir

athugasemdir