Ísland og umheimurinn

islandiiiKranamaður einn sem vinnur með mér sagði mér forvitnilega sögu í vinnunni á laugardaginn, í senn ömurlega og skondna. Þau fjölskyldan fóru til Tyrklands í sumarfríinu í fyrra og voru þar í góðum gír fyrir utan, eins og stundum vill verða þarna megin í heiminum, að sölumenn alls konar drasls sóttu fast að þeim með varning sinn. Þetta er ekkert grín, ég minnist Búlgaríuferðar okkar árið 2007, á meðan allt lék í lyndi, þar sem sígaunakonur nokkrar voru svo aðgangsharðar með ómerkilegar hálsfestar til sölu að á tímabili íhuguðum við að flytja þær til Íslands og leigja þær út til tryggingafélaga sem sölumenn. Þetta lið tók nei ekki sem svar.

Nú, alla vega, þessi vinnufélagi minn fann leið út úr ógöngum sínum. Þau fjölskyldan brugðu einfaldlega á það ráð að segjast vera Íslendingar þegar sölumenn stormuðu að og það svínvirkaði án þess að nokkrar skýringar þyrftu að fylgja með. Menn gáfu einfaldlega upp alla von eins og í Vítisljóði Dantes. Slík var þá vitneskjan hjá götusölum Tyrklands um efnahagsmál á Íslandi eftir hrun.

Þetta eru sennilega engar ýkjur. Ég vék að því stuttlega í pistli um dvöl okkar í Amsterdam í sumar að nú væri öldin önnur að vera Íslendingur í Hollandi. Síðast hafði ég verið í Amsterdam í júlí 2005, fyrir Icesave og á tíma þegar Íslendingar áttu sér enga fastmótaða mynd í hollenskum hugum, nema kannski eitthvað tengt brennivínsdrykkju.

Nú er öldin önnur. Oftar en einu sinni og oftar en tvisvar lentum við í því, þegar leigubílstjórar eða starfsfólk veitingahúsa áttaði sig á uppruna okkar, að okkur var kurteislega vísað á næsta hraðbanka og vinsamlegast beðin um að leggja fram beinharðar evrur sem greiðslu frekar en greiðslukort sem þetta góða fólk áleit klárlega að væru ekkert annað í höndum Íslendinga en ný svikamylla til að klekkja á hollenskum almenningi eftir vel heppnað rothögg Landsbankans og hinna annáluðu Icesave-reikninga um árið.

Á maður að hlæja eða gráta?

Athugasemdir

athugasemdir