Hvar hafa dagar lífs þíns lit sínum glatað?

dyrabjallaR… nágranni minn er róni. Hann er það nálægt doktorsgráðunni í greininni að eini munurinn á honum og hreinræktuðum útigangsmanni er íbúðin sem hann enn fær að dvelja í hérna uppi í risi, einmitt á hæðinni fyrir ofan okkur. Á því verður þó sennilega breyting fljótlega. (MYND: Tekið til varna. Þessi miði leysir nú af hólmi dyrabjölluna okkar sem var. Auk róna losar hún okkur reyndar líka við sölufólk og trúboða.)

M…, leigusalinn okkar, sem á allt húsið, hefur nú sent R… uppsagnarbréf og gert honum að yfirgefa bygginguna eigi síðar en 30. júní sem er í samræmi við norsk lög og reglur um réttindi leigutaka. Áður en til þess kemur að leigjanda sé sagt upp vegna eigin hegðunar þarf að gefa honum svo og svo margar skriflegar aðvaranir og nú skilst mér, eftir samtal við M… á fimmtudaginn, að sá mælir sé fullur og eitthvað rúmlega það.

Hann hringdi í mig til að gera mér grein fyrir þessu. Einnig til að lýsa einskærri undrun sinni. Núna hefur konan á fyrstu hæðinni kvartað í milljónasta sinn yfir R…, þeim hávaða sem berst frá honum og þeim ógnandi tilburðum sem hún telur hann hafa í frammi þegar hann fer ölvaður um húsið og lýsir vanþóknun sinni á því að skipta þurfi um peru í stigaganginum, fjarstýringin á samlæsingunum í bílnum okkar hringi dyrabjöllunni hans (hann hefur talið sér trú um það) eða bara lífinu almennt. Hún er ekki ein um þetta. Nágrannar í tveimur húsum í götunni hafa einnig haft samband við M… og gert grein fyrir miður ánægjulegum samskiptum við R… sem hefur hótað öðrum þeirra lífláti fyrir að stela ítrekað póstinum sínum (sem er ekkert nema innheimtubréf og sektargerðir og því varla eftirsóknarvert þýfi). Að lokum hefur verslunarstjórinn í Coop, sem er hverfisbúðin okkar og aðeins 70 metra frá húsinu, haft samband við M… og gert grein fyrir hegðun R… í bjórverslunarferðum sínum þar sem hann ku vera lítt við alþýðuskap, öskrar hástöfum á starfsfólkið og neitar að hleypa næsta viðskiptavini að afgreiðslukassanum.

Yfir hverju er M… þá að lýsa undrun sinni í símtali við mig? Jú, yfir því að við, fólkið sem býr næst R…, með aðeins eitt gólf/loft á milli, erum einu mannverurnar í um það bil 100 metra radíus sem hafa ekki sagt eitt aukatekið orð um R…, hvorki kvartanir né annað.

Það er rétt, við höfum ekki nennt að standa í því að gera eitthvert mál úr þessu ástandi. Ég hef held ég tvisvar farið á baðsloppnum upp um miðja nótt og beðið R… vinsamlegast að lækka í Møkkamann með Plumbo eftir að hafa heyrt það niður til okkar á repeat í fimm tíma…og í botni. Helsta bölvun okkar hér í Noregi hafa verið nágrannar með rotinn tónlistarsmekk, núna R… og áður hjúkrunarkonan B… á Overlege Cappelensgate sem drakk meira en ég og hafði mikið dálæti á sama lagi auk alls þess versta sem þjóðir Skandinavíu hafa boðið upp á í Eurovision frá Bobbysocks og fram á þennan dag.

Sennilega telst þetta langlundargeð. Venjuleg helgi hjá R… hefst síðdegis á föstudegi og er stanslaus teiti rétt fram yfir hádegi á sunnudegi. Jafnan mætir til leiks J…, vinur R…, sem á nákvæmlega eina tönn eftir í túla sínum. Þar er væntanlega komin hin rómaða tímans tönn. Hann bruggar einhvers konar mjöð úr berjum, bleikan að lit og um 17% (segir hann) og svo er þambað hér uppi í risi allan sólarhringinn. Nema þegar bæturnar koma 20. hvers mánaðar. Þá eru menn kóngar í einn dag eins og það er kallað og tekinn leigubíll á helstu rónabari Sandnes, svo sem Madam Aase’s og Sandnes Brasserie.

Auk þessa banka vinir R… (og stundum hann sjálfur) upp á í öðrum íbúðum og betla peninga og brennivín, ýmsir vökvar finnast sem pollar í stigaganginum, ölvað fólk klifrar upp brunastigann og brýst inn til R… þegar hann sefur ölvunarsvefni og kemst ekki til dyra, annað ölvað fólk hringdi dyrabjöllunni okkar (áður en við einfaldlega fjarlægðum hana) allan sólarhringinn til að láta hleypa sér inn og djöflast á hurðinni hjá R…, R… barði allt húsið að utan öskrandi um miðja nótt til að láta hleypa sér inn án þess að átta sig á því að hann hafði gleymt lyklunum sínum í skránni á útidyrahurðinni þegar hann fór á barinn um kvöldið og hann á það til að elda mjög illa lyktandi mat og berst þá ilmurinn niður til okkar gegnum skápinn í gestaherberginu (sem guði sé lof er jafnan ómannað) en það telst víst eðlilegt hér um slóðir í húsum byggðum 1947.

R… er tæplega sextugur. Þetta er fremur dapurlegt og ég á svo sem ekki beint eftir að sakna hans þegar hann dregst ofan í næsta ræsi lífs síns. En ég kvartaði aldrei.

Athugasemdir

athugasemdir