Hvað gera uglur?

uglaFyrsta uglan gól í suðaustri í morgun eins og ungur drykkjumaður sem getur ekki sofið. Einhverjir þekkja kannski þarna næfurþunna vísun í Vefara Kiljans nema hvað þar var um spóa að ræða. Eftir stendur að við heyrðum uglu kveða hressilega við raust í garði nágrannans þegar við gengum til vinnu í kyrrðinni í morgun. Þetta er ótvíræður vorboði en síðasta sumar var það dagviss viðburður að heyra í uglu þegar við hjóluðum til vinnu snemma morguns ofan úr Forus. Dásamlegt. Hér vorar enda ört og krókusar eru farnir að stinga grænum kolli upp úr moldarbeðum. Fyrsta grill verður sennilega í þessum mánuði.

Það er til vandræða hve uglur eru lítt útbreiddar á Íslandi. Fyrir vikið er það ekki hluti af þjóðlegum fróðleik hvað hljóðin heita sem þær gefa frá sér og stoðar lítið að fara með hina gamalgrónu vísu ‘Hani, krummi, hundur, svín, hestur, mús, tittlingur,/galar, krunkar, geltir, hrín…’ Þarna er blessuð uglan fjarri góðu gamni. Gólar hún, öskrar eða vælir? Mér er spurn.

Leitarvéfréttin Google reyndist þarna skammgóður vermir. Í stað þess að finna harðsnúnar fræðigreinar um uglur og hljóðróf þeirra biðu mín helst síður tengdar tölvu Reiknistofnunar Háskólans, sem ber nafnið Ugla(.rhi.hi.is) en að auki varð ég þess heiðurs aðnjótandi að kynnast merkilegum félagasamtökum í Los Angeles, The Uptown Gay and Lesbian Alliance, eða UGLA, en heimasíðu þeirra má skoða hér.

Núna er vetrarfrí í eina viku í norskum skólum, svokallað vinterferie. Slíkt er einnig í eina viku á haustin. Áhrifin teygja sig þó langt út fyrir menntakerfið því norskt þjóðfélag fer hálfpartinn á hliðina meðan á þessu stendur. Foreldrar skólabarnanna taka sér nefnilega meira og minna frí frá vinnu í samúðarskyni og svo fer öll fjölskyldan á skíði eða hírist í kofum einhvers staðar uppi á fjöllum, svonefndum hyttum, en áhugi á slíku nálgast maníu hér í landi. Heilt tímarit á stærð við Hús og híbýli (eins og það var í gamla daga alla vega) er gefið út í Noregi og fjallar eingöngu um hytte-viðhald, -menningu og -ferðir. Ég blaðaði gegnum eitt slíkt á kaffistofunni hjá Nortura þegar ég vann þar í haust og var uppistöðugreinin eitthvað um átta blaðsíðna langt viðtal við smið nokkurn sem útlistaði í máli og myndum hvernig hann leiddi útblásturspípu úr kamínu út um alla hyttuna og hitaði þar með allt rýmið upp með því einu að kveikja í kamínunni. Margir hyttuáhugamenn hafa vafalítið setið sem dáleiddir yfir lýsingunni.

Nú er sem sagt eins konar frívika og gangurinn í þjóðfélaginu svipaður og um miðjan júlí fyrir utan að ferðum strætisvagna fækkar ekki um helming. Ekkert tae kwon do þessa viku sem sagt svo við áttum alfarið frí frá öllum æfingum í dag þar sem við lyftum ekki á mánudögum. Þetta er óvenjulegt og virkar nánast eins og að vera í fríi heilan dag þar sem vinnan nær bara til 14:30. Fín upphitun fyrir páskafríið í næsta mánuði.

Athugasemdir

athugasemdir