Hvað fæst fyrir nefskatta?

RÚVÍ skattaálagningu þessa árs var nefskattur Ríkisútvarpsins lagður á í fyrsta sinn, 17.900 króna krafa á alla landsmenn 18 til 67 ára, óháð fjölda skattþegna á hverju heimili. Í frumvarpinu er rætt um að hlutfall auglýsinga á kjörtíma (e. prime time) skuli ekki vera meira en fimm prósent. Kjörtími er útsendingartími frá klukkan 19 til 22.

Gott og vel, landsmenn ættu þá að eiga heimtingu á að fá að minnsta kosti fréttir á þeim tímum sem almennt ganga undir heitinu fréttatímar. Ætla mætti að það væri lágmarkskrafa til stofnunar sem kallar sig almannaútvarp (hér ríkisútvarp). Þessa lágmarksskyldu gat Ríkisútvarpið ohf. ekki uppfyllt í kvöld. Þegar undirritaður skipti yfir á sjónvarpsrás Ríkisútvarpsins klukkan 19:00 laugardaginn 5. september mátti þar sjá 22 menn hlaupa á eftir bolta.

Stofnunin ákvað sem sagt að taka knattspyrnuleik fram yfir fréttaflutning á ögurstundu í þjóðfélaginu. Telji íslensk stjórnvöld þegnum sínum fyrir bestu að neyða þá til að greiða 17.900 krónur á ári fyrir ríkisrekinn fjölmiðil hljóta hinir skattpíndu þegnar á móti að geta gert kröfu um að viðkomandi stofnun flytji fréttir sínar á réttum tíma miðað við alkunna venju. Á heimasíðu RÚV kemur fram að fréttir hafi verið fluttar klukkan 18:00 í stað 19:00 og hafa margir væntanlega áttað sig á þessu of seint.

Sé fólk neytt til að greiða fyrir þjónustu hlýtur það að vera lágmarkskrafa að þjónustan sé látin í té refjalaust. Ég get ekki orða bundist um að ég tel Ríkisútvarpið hafa brugðist þeirri skyldu sinni í dag.

Athugasemdir

athugasemdir