Svona lítur heimili okkar, frá og með mánudeginum 30. apríl, út utan frá séð. Tveggja hæða hús með kjallara og risi í Hana í Sandnes. Dyrabjallan virkar ekki sem er reyndar ágætt. Við kaupum nefnilega ekki merki. Við komum til með að búa á annarri hæðinni og ég kvíði því mjög að reyna að koma ýmsum hlutum búslóðarinnar upp snúinn hringstiga sem leiðir okkur að sælureitnum.
Í ljós kemur á morgun hvort það tekst. Þegar þetta er ritað höfum við ekið fjórar ferðir á Ford Transit Contact (sem er hommaútgáfan af Ford Transit) og eina á Mercedes Benz Sprinter sem er öllu stærri bifreið. Hluta búslóðarinnar var þegar grýtt inn í bílskúr til að flýta fyrir en þegar til átti að taka kom í ljós að við gátum ekki læst bílskúrshurðinni aftur. Sú staðreynd olli miklu hugarangri þar til við prófuðum að rífa í hurðina á bílskúr nágrannans en við deilum tvöföldum bílskúr án milliveggjar með honum. Þar laukst gáttin greiðlega upp svo við ákváðum að þá skipti líklega minnstu hvort við læstum okkar megin eða ekki. (MYND: Andlegt ástand í flutningum.)
Á morgun verða líklega eknar þrjár ferðir á Sprinter-Benzinum og þá verður núverandi húsnæði að vonum tómt. Þar með verða þrifin ein eftir og svo skilum við af okkur, ef guð lofar, síðdegis á sunnudag eða þá um kvöldið. Með því líkur tveggja ára búsetu okkar í Stavanger og við gerumst ibúar Sandnes. Tilfinningaþrungin stund. (MYND: Á miðri leið.)
Við fáum breiðband tengt til okkar á nýja staðinn miðvikudaginn 9. maí klukkan 08:00. Þetta tjáði mér Andreas Brevik hjá þjónustuveri Lyse sem hlýtur að vera mjög ánægður með nafnið sitt þessa dagana. Hann bar byrðina þó með prýði og færði mér þau skemmtilegu tíðindi að ég þarf ekki að grafa holu upp við húsvegginn fyrir breiðbandinu. Ég þarf að grafa fimm metra langan skurð frá götunni og upp að húsvegg. Þá koma þeir eins og frelsandi englar og tengja breiðbandið fyrir 1.400 krónur. Brevik ætlar reyndar að gera mér þann greiða að samhæfa störf breiðbandsdeildarinnar og öryggisdeildarinnar þannig að öryggiskerfið verði sett upp á sama tíma. Það sparar okkur eina ferð úr vinnunni til að hleypa fólki með skrúfjárn inn til okkar. (MYND: Skáparnir tómir, hálfur sigur.)
Frá og með morgundeginum verð ég því lýðnets- og heimasímalaus til að minnsta kosti 9. maí. Það er svo sem ágætt. Ég er að hugsa um að nota tækifærið og lesa Íslandsklukkuna í 28. skipti. Sú bók er núna í kassa í Benz Sprinter hérna fyrir utan. Það er fáránleg tilhugsun.
Góðar stundir. Fréttastofa atlisteinn.is reynir að standa vaktina á netkaffihúsum og öðrum sorapyttum mannlífsins þar til 9. maí. Fer þó sparlega í loforðin.