Houston-draugurinn, Landsdómur, nýnorska

draugurNú hafa mikil undur og stórmerki orðið ef marka má stórfrétt Vísis frá í gær. Fyrirsögnin ein er reyndar mun merkilegri en efni fréttarinnar, ‘Whitney Houston gengin aftur sem draugur‘. Orðalagið gefur óhjákvæmilega tóninn fyrir aðrar fréttir af öðru látnu fólki sem gengur aftur, en þó ekki sem draugar heldur eitthvað allt annað. Nú þyrfti einhver Jón Árnason 21. aldarinnar að hefja söfnun alþýðufrásagna af meintum valkostum afturgenginna við gömlu draugsaðferðina sem væntanlega þykir ekki nægilega móðins árið 2012.

Ég hef fylgst með fréttaflutningi af Landsdómi samhliða öðrum fréttum ofan af Íslandi. Ekki af því að ég hafi brennandi áhuga á þessu rugli, ég er löngu kominn með andlegan niðurgang af þessu blessaða hruni og veit að Haarde verður klárlega sýknaður enda á maðurinn örugglega ekkert stærri hlut í þessu en fjölmargir aðrir, jafnvel töluvert minni. Hins vegar blómstrar fræðilegur áhugi minn yfir því að þessi merkilegi sérdómstóll hafi loksins komið saman á Íslandi, eiginlega átti ég ekki von á að upplifa það á minni ævi og ég verð örugglega hundrað ára af því að ég drekk svo lítið brennivín í byrjun ársins.

Það er stórmerkilegt að þetta gerist á Íslandi, sambærilegir dómstólar hafa sárasjaldan komið saman í Skandinavíu. Landsdómur Dana, Rigsretten, hefur gert það fjórum sinnum, síðast í Tamílamáli Erik Ninn-Hansen árið 1995 en þar áður 1910. Hérna í Noregi kom Riksretten síðast saman árið 1927 en nokkuð á 19. öld. Hlutverk hans hefur þó held ég, öll þau skipti, verið að afnema neitunarvald konungs gegn lögum en ekki að dæma um pólitísk embættisbrot ráðherra. Ísland brýtur því nánast blað í Norðurlandasögunni á þessu herrans ári.

Norska ríkisútvarpið NRK hefur auðvitað fylgst með málinu, eins og reyndar aðrir norskir fjölmiðlar en þeir segja ekki allir frá réttarhöldunum á nýnorsku eins og NRK gerir til dæmis í þessari frétt. Mér finnst leiftrandi skemmtilegt að lesa nýnorsku, hún stendur íslenskunni mun nær en bókmálið enda var hún búin til með það fyrir augum að draga saman það besta úr norsku alþýðumáli eins og það var fyrir innrás dönskunnar í tungumálið. Þegar við æfðum enn þá í SATS hér áður var einn sjónvarpsskjárinn þar jafnan stilltur á einhverja af sjónvarpsrásum NRK sem sýndi án afláts forna Derrick-þætti með nýnorskum texta. Ég átti það til að detta alveg inn í þetta í stað þess að taka á lóðunum.

Athugasemdir

athugasemdir