Holy Diver – In memoriam

dioRonald James Padavona andaðist sunnudaginn 16. maí og ég vissi ekkert af því fyrr en í gær! Þessi lágvaxni ítalsk-ameríski einstaklingur var auðvitað mun betur þekktur undir heitinu Ronnie James Dio eða bara Dio og sannaði að hægt var að fara í skóna hans Ozzy Osbourne þegar hann tók við hljóðnemanum í Black Sabbath árið 1979. Eins var Dio þekktur fyrir þátt sinn í hljómsveitinni Rainbow að ógleymdri Dio sjálfri sem gat af sér meistaraverkið Holy Diver. Sem sagt fullkomlega verðugur einstaklingur til að fá um sig nokkur orð á atlisteinn.is. (MYND: Dýfingameistarinn steytir hornin. Hvíl í friði.)

Magakrabbamein lagði kappann að velli 67 ára gamlan og hefur krabbinn þar með orðið banamein tveggja soldána þungarokksins þennan áratug en einhverjir harðir naglar í bransanum kunna að minnast þess er Chuck Schuldiner, slagæð hljómsveitarinnar Death, lést af völdum illkynja heilaæxlis 13. desember 2001. Þeim, sem kveikja ekki á perunni, er bent á tímamótaverkin Leprosy og Spiritual Healing auk þess sem vekja ber sérstaka athygli á því að þau 18 ár sem Death starfaði var Schuldiner eini maðurinn sem var í sveitinni allan tímann.

Ég ætla að hafa einnar mínútu þögn til að minnast þessara tveggja stórmenna………………takk.

Dio nær alla leið inn í raðir Íslandsvina þar sem hann spilaði með Sabbath á Akranesi í byrjun september 1992. Jethro Tull voru með í för og spilaði hvor sveit eitt kvöld, Tull seinna kvöldið. Ég var á þeim tónleikum, eina skiptið á ævinni sem ég sigldi með Akraborginni, og ég verð að játa það hér að ég sé dálítið eftir að hafa ekki verið á ferð kvöldið áður.

Eitt af því merkilegasta sem Dio lagði sögu rokksins til (fyrir utan tónlist) eru sjálf hornin, róðukross og helgasta tákn þungarokkara um víða veröld. Þeir sem til þekkja vita að sjaldnast nást af mér myndir hornlausum svo ég er ekki í vandræðum með að fiska eina úr safninu. Dio sagði þá sögu að hornin hefði hann tekið upp eftir ítalskri og hjátrúarfullri ömmu sinni sem hafi notað þau til að verja sig gegn illa auganu (s./í. mal de ojo) sem er (eða var) talið geta lagt bölvun á þann sem fyrir varð. Með þessum línum bið ég Dio og ömmu hans að hvíla í friði og þakka framlag beggja til rokksins.
horn
Áður en ég líð inn í heim drauma verð ég líka að leiðrétta örlítinn misskilning úr pistli mínum síðan í gær sem sneri að fimm blaðsíðna peningaþvættiseyðublaði Nordea-bankans hér í Stafangri. Þegar við mættum í bankann í dag til að fá reikningsnúmerin okkar og alls konar gögn afhent játaði þjónustufulltrúinn að sér hefði orðið á í messunni og hann látið okkur fylla út samsvarandi eyðublöð ætluð fyrirtækjum. Rétt eyðublöð reyndust tvær síður hvort svo þetta er ekki alveg á sovétstiginu. (MYND: Arfleifðin á lofti, ég er ekki búinn að raka mig, myndin er frá 2007. Þarna skuldaði ég ekki eina krónu, ha ha ha!)

Þrír dagar í kosningar! atlisteinn.is skorar á allt kosningabært fólk í Reykjavík að setja X-ið við Besta flokkinn og stimpla þau skilaboð á enni fjórflokkunarliðsins að nóg sé komið af klisjukenndum leir og sýndarstjórnsýslu á Íslandi. Ég sé því fleygt á skoðanaskiptasíðum að Besti flokkurinn komi aldrei í stað atvinnupólitíkusa sem kunni að reka sveitarfélag með öllu sem því fylgir. Ég sé ekki að neinn sem nú situr í ráðhúsi borgarinnar hafi hundsvit á því hvernig reka skuli nokkurn skapaðan hlut, bókhald Guðmundar í Byrginu hefur ábyggilega verið eins og doktorsritgerð við hliðina á því sem fært er hjá Reykjavíkurborg.

Athugasemdir

athugasemdir