Átakið Hjólað í vinnuna sem hér fór fram með miklum harmkvælum í síðustu viku gekk heldur betur vonum framar. Í fyrsta sinn tókst okkur af botnlausum aga og ósérhlífni að hjóla til og frá vinnu alla fimm dagana. Þetta gerir 105 kílómetra í heildina og ég er bara nokkuð stoltur af okkur. Þegar við bætist daglegur hjólatúr héðan heiman frá okkur og í ræktina, um tveir km hvora leið, höfum við lagt að baki um 120 kílómetra hjólandi í vikunni. Mér býður í grun að ég verði ekki lengi að ná jöfnuði við allar hjólreiðar æsku minnar með þessu áframhaldi. Nú sé ég eftir að hafa ekki safnað áheitum!
Þetta táknar auðvitað að spik brennur upp með ævintýralegum hraða og ég nálgast hægt og bítandi þá fituprósentu sem ég var í við þurrklok í byrjun mars. Að sjálfsögðu þótti þessi magnaða þrautseigja góð og gild ástæða til að fá okkur hvort tveggja rauðvín og gin og tónik í gær og í þessum skrifuðu orðum stendur fyrsta GT-glas dagsins við hlið mér á borðinu. Nú held ég að ég sé endanlega búinn að finna ódýrasta ginið í ríkinu en það er hvorki meira né minna en norskt að uppruna og heitir Hammer. Verðið er 269,90 norskar eða 5.400 íslenskar fyrir 700 ml flösku. Þá verður að segjast að þetta er bara hinn ágætasti drykkur, ekkert Bombay reyndar en fínt samt. Ég tel dagana þar til ég get farið að brugga rauðvín þegar við komumst í endanlegt húsnæði í haust. Þá lækkar áfengisreikningurinn og veitir ekki af.
Talandi um húsnæðismál höfum við fengið augastað á öðru raðhúsi sem er kjallari og tvær hæðir. Það stendur við hlið sjúkrahússins eins og hitt sem við skoðuðum um daginn enda gatan kennd við Cappelen yfirlækni og heitir einfaldlega Overlege Cappelensgate. Þetta er í Våland-hverfinu sem ég hef skrifað um áður og við höfum mikið dálæti á. Verðið er 14.000 krónur sem okkur þykir svona eins og einum þúsundkalli of mikið. Við erum á leiðinni að skoða í annað sinn á þriðjudaginn og gælum við að gera tilboð upp á 13.000 krónur á mánuði gegn loforði um að við leigjum til minnst þriggja ára. Leigusölum hér þykir fátt eftirsóknarverðara en að ná í langtímaleigjendur, auglýsingar og þjónusta leigumiðlara eru langt í frá ókeypis. (MYND: Norska ginið Hammer er prýðisdrykkur er lyftir geði guma. Nú er spurningin hvort maður verði fjötraður fjöðrum fuglsins óminnishegra þá maður vaknar í garði Gunnlaðar er segir af í Hávamálum.)
Jón Hákon Halldórsson, blaðamaður, barnasálfræðingur og fyrrum samstarfsmaður minn hjá 365, skrifaði þessa frétt á Vísi á þriðjudaginn. Fyrir þá sem nenna ekki að smella á hlekkinn í háhraðaþjóðfélagi samtímans fjallar hún um að tímakaup Sigurðar Böðvarssonar, sérfræðings í krabbameinslækningum við Landspítalann, sé rétt um 60 krónum hærra en það sem dóttir hans fær greitt fyrir vinnu á kaffihúsi. Ég vék því að Jóni Hákoni í tölvupósti að ef til vill mætti benda lækninum á að tímakaup hans er langt undir tímakaupi ræstingafólks við Háskólasjúkrahúsið í Stavanger sem slagar í 3.000 krónur í dagvinnu og tvöfalda þá upphæð í yfirvinnu en á sjúkrahúsinu er yfirvinnutíminn einfaldlega tveir dagvinnutímar. Nú spyr ég: Hvort er þá eitthvað verulega mikið að á íslenskum vinnumarkaði eða þeim norska?
Reyndar á sá skúringamaður, sem hér skrifar, að baki sjö ára háskólanám en það hefur lítið gagnast við spítalaþrifin hingað til, nema kannski þegar gamla konan fékk niðurganginn góða um daginn. Þá minntist ég fyrirlestrar Páls Skúlasonar í heimspekilegum forspjallsvísindum einhvern tímann á síðustu öld, þar sem hann lagði út af grein úr riti sínu, Pælingar II, og ræddi um afstöðu okkar til lífs og líkama okkar sjálfra og annarra.