Hiti, helgin og pólski bjórinn Zubr

hitiHitastigið í dag fór yfir þau mörk sem ég skilgreini sem óþægileg. Það er ömurlegt að svitna eins og hóra í kirkju í vinnunni og geta ekki einu sinni stólað á netta hafgolu þótt maður sé að vinna við opið gin Norðursjávarins. Samt var þetta engan veginn sami hryllingurinn og grillvikan í maí þegar ég varð nánast að hlaupa um til að geta andað. (MYND: Sviti.)

Helgin var unaður eftir að helgarfríið hófst loksins á laugardagskvöldið. Bubbi á fóninn og sindrandi hvítvín í glösum. Við brugðum undir okkur fætinum (veit ekki hvort það var sá betri) og kíktum í teiti til Ólafar. Þar var meðal annars ákaflega geðþekkt þýskt par og auðvitað gat ég ekki stillt mig um, eins og alltaf þegar ég tala við Þjóðverja, að segja þeim frá Adda skólabróður mínum sem náði að misskilja besuchen sem laust samsetta sögn í þýsku og mynda setninguna “Ich suche dich be”. Drengurinn er kallaður Addi be enn þann dag í dag af völdum þessa (sorrý Addi ef þú ert að lesa þetta en trúðu mér þú ert búinn að slá í gegn hjá hundrað og eitthvað Þjóðverjum án þess að hafa hugmynd um það).zubr

Annars gerðist sá merkilegi atburður í dag að mér var gefið áfengi í vinnunni í fyrsta skipti. Þar var þó ekki forstjórinn á ferð að launa mér hrikalega atorkusemi mína heldur ungur Pólverji sem kom akandi frá Þýskalandi með rör frá Ítalíu. Hann var svo ánægður með hvað ég náði að babla við hann á þeirri litlu pólsku sem Robert Sumera náði að kenna mér í sláturhúsinu haustið góða 2010 að hann dró fram bauk af hinu pólska öli Zubr og veitti mér að gjöf. Þetta er hörkubjór, heil 6 prósent, eiginlega leiðinlegt að ég drekk ekki bjór en ég ákvað að móðga manninn ekki með því að segja honum það heldur sagði bara dziekuje bardzo og leyfði honum svo að fara í sturtu í búningsherberginu okkar (hann bað um það).

Ég veit að ég var manískur Facebook-andstæðingur í mörg ár en hvort sem þetta fyrirbæri er hnattræn uppljómun eða sjúklegur staðgengill félagslegrar ráðgjafar hefur vera mín þar aukið fjölda nýrra gesta á atlisteinn.is um 49,15 prósent frá því í síðustu viku ef marka má vikulega lestölfræði sem ég fæ senda á mánudögum. Ég ætti kannski að fara að selja auglýsingar og þróa mig upp í rafrænt stórveldi. Nei, ég myndi ekki nenna því. Blindur er (feis)bóklaus maður.

Uppljómun dagsins á téðri Facebook er stikla úr norskri útgáfu Kill Bill sem Bjarki sendi mér, stórvirkinu Kill Buljo, sjá HÉR. Ég verð að sjá þessa mynd án ástæðulausrar tafar!

Athugasemdir

athugasemdir