Hin volga flokkssæng og lutefisk

lutefiskÞað er gaman að fá ferska vinda inn í sveitarstjórnarkosningarnar í vor með Besta flokki Jóns Gnarr og félaga. Enn skemmtilegra er að flokkurinn hefur mokað til sín fylgi og fengi hiklaust mitt atkvæði kysi ég í Reykjavík og hefði nennu í mér til að kjósa hjá sýslumanni en ég verð orðinn útlendingur þegar Íslendingar fylla kjörklefana 29. maí. Sigurjón Kjartansson átti fínan sprett í Silfrinu í dag þar sem talsmenn flokkanna kynntu stefnumál sín fyrir kosningarnar. Þar talaði Sigurjón um að hinir hefðbundnu stjórnmálamenn Íslands skriðu undir volga flokkssængina sem mér finnst skemmtilegt og viðeigandi hugtak. (MYND: Þetta er kvikindið, lutefisk eins og hann er borinn fram að hefðbundnum sið.)

Ég ligg nú í rannsóknum á matarhefð Norðmanna til að vera kominn með það á hreint hvað telst tradisjonalt á diskum þarlendra. Einkum hefur svonefndur lutefisk vakið athygli mína og óska ég reyndar eftir íslenskri þýðingu. Þetta er hertur golþorskur sem bleyttur er í lút og þar með gerður baneitraður um stund. Svo er hann látinn liggja í hreinu vatni í tíu daga, saltaður og hans svo neytt með soðnum kartöflum, stöppuðum baunum og beikoni. Þetta er mjög forvitnilegt. Við rannsókn með aðstoð Google má meðal annars finna lýsingar Íslendinga sem hafa bragðað lutefisk og einhver ritaði á blogg sitt að þetta væri bragðmikill saltur réttur sem lyktaði dálítið eins og kæst skata en alls ekki eins sterkt þó.

Lutefisk er jólamatur mestmegnis og borða Norðmenn tæp 800 tonn af honum í nóvember og desember ef marka má hagtölur en minna á öðrum árstímum. Þó er þetta algengur réttur á þjóðhátíðardaginn 17. maí. Maður veit ekki almennilega hvað er heppilegast að líkja þessu við hér á landi. Ekki höfum við sérstakan þjóðhátíðarmat nema ef vera skyldi ein með öllu og kók í brakandi þynnku eftir hin raunverulegu hátíðarhöld sem fara að jafnaði fram að kvöldi 16. júní.

Athugasemdir

athugasemdir