Hin hæga kvörn tímans

riggerkursÉg er eiginlega nær dauða en lífi núna þegar þrír af fimm dögum á riggerkurs í boði Rogaland Kranskole eru að baki. Þetta er alveg botnlaust helvíti, ég held að ég hafi aldrei á ævinni setið eins leiðinlegt námskeið og er þá langt til jafnað.

Það eru ekki leiðbeinendurnir, þeir eru fínir og hafa skilað mér gegnum fleiri námskeið við stofnunina, heldur efnið sem er algjörlega dauðinn á skriðbeltum. Þungamiðjan er notkun á keðjutalíum og bjálkaklemmum til að flytja ventla af ýmsum stærðum og gerðum, 1.600 kg sá stærsti sem við notum, milli þilfara og vinnusvæða á olíuborpöllum. Auk þess að festa klemmur og hlaupaketti á viðurkenndan hátt í burðarbjálka í loftinu þarf að gefa sérstakan gaum að leyfðu hámarksburðarhorni (n. arbeidsvinkel) á hverri tegund festipunkts (0 – 45 gráður eftir gerð) og mæla hornið með þar til gerðum búnaði. Þetta var hópurinn að dunda sér við frá klukkan 08 til 17 í dag og menn flestir orðnir brúnvölir mjög þegar afplánun lauk.

Í fyrramálið er tveggja klukkustunda próf úr fræðilega hlutanum og svo verklegt til fimm en á föstudaginn afhjúpast okkur hin sanna martröð þegar við þreytum verklegt próf frá átta til tvö í fjórum hópum og fáum svo að vita hvort skírteinið sé í höfn eða hvort einhverjir þurfi að mæta á ný eftir hálfan mánuð og endurtaka annað prófið…eða bæði.riggerkursii (MYND: Rósa festir S2A Superclamp í burðarbjálka í fullum herklæðum og lögboðnu fallvarnarbelti.)

Ég sé næstkomandi laugardag í hillingum einhvers staðar handan við þetta allt en þá ætla ég að bera allt það sem ég ræð við í einni ferð út úr Vinmonopolet í miðbæ Sandnes og eiga svo notalega kvöldstund yfir rammíslenskri kosningavöku með ókjör af brennivíni. Og það besta af öllu verður hvað mér mun finnast ég eiga það skilið…nema reyndar ég falli í riggerkúrsinum.

Eftir þetta allt saman skiptast á vinna, próflestur og svefn þar til 15. maí þegar prófum í brønnteknikk lýkur og hægt verður að fara að tala um það að lífið, í þeirri mynd sem við svona almennt þekkjum það, snúi aftur. Slíkum tímamótum þarf auðvitað að fagna vel og rækilega en það verður gert á stórtónleikum New York-sveitarinnar góðkunnu KISS sem stígur stífmáluð á svið á Viking Stadion laugardaginn 8. júní eftir upphitun af hálfu einnar björtustu vonar norskrar metal-tónlistar, Kvelertak. Um 20.000 miðar eru þegar seldir svo búast má við rífandi stemmningu á vellinum. Nú er bara að leggjast á bæn um að veðrið verði það sama og þegar Eagles stóðu vaktina á eftirminnilegum tónleikum á sama stað um hvítasunnuna 2011.

Það er bara að losa sig við þessi bévítans próf fyrst…

Athugasemdir

athugasemdir